Handverkshátíð í Eyjafirði mun ekki fara fram í sumar

Frá Handverkshátíð í Eyjafirði. Mynd úr safni.
Frá Handverkshátíð í Eyjafirði. Mynd úr safni.

Á vef Eyjafjarðarsveitar er greint frá því að ákveðið hafi verið að ráðast í endurskipulagningu á hinni árlegu Handverkshátíð í sveitarfélaginu. Félögin sem að hátíðinni standa finna fyrir breyttu landslagi eftir heimsfaraldur Covid.

„Til þess að þróast í takt við óskir og hugmyndir sem fram hafa komið þarf að vanda til verka, óska eftir umsögnum og hugleiðingum sýnenda, fastagesta og annarra sem að sýningunni koma. Svo vel megi ganga er því gott að hafa góðan tíma til undirbúnings en faraldurinn hefur nú þegar gefið okkur tíma til að íhuga breytingar og tækifæri til að huga að því sem vel hefur verið gert og því sem betur má fara,“ segir í tilkynningunni.

Enn fremur segir að öll vinna í kringum hátíðina sé sjálfboðavinna í fjáröflunarskyni fyrir þau fjölmörgu félög sem að henni standa. Því sé mikilvægt að vanda til verka og gefa sér nægan tíma. Hefur því verið ákveðið að Handverkshátíð muni ekki fara fram í sumar en strax í haust mun skipuleggjendum, sýnendum og öðrum áhugasömum verða boðið á málþing um endurskipulagningu Handverkshátíðarinnar.


Athugasemdir

Nýjast