Hanar verði bannaðir á Akureyri

Hanar komu við sögu á síðasta fundi bæjarstjórnar Akureyrar, þegar fram fór fyrri umræða um drög að samþykkt um búfjárhald. Fram kom í máli Odds Helga Halldórssonar formanns framkvæmdaráðs, að hanar valdi ónæði með sínum fallega söng, eins og Oddur orðaði það, og því er lagt til að hanar verði með öllu bannaðir á Akureyri, utan lögbýla.

Andrea Hjálmsdóttir bæjarfulltrúi VG tók einnig til máls en sjálf er hún hæsnabóndi. Hún sagðist vel geta skilið það að sett yrði bann við því að fólk væri með hana. Hún sagði þó að engar kvartanir hefðu borist framkvæmdadeild vegna hænsahalds í bænum. Andrea taldi það jafnframt ástæðulaust að gera fólki, sem vildi halda hænur, erfiðara fyrir, með því að láta það sækja um leyfi fyrir kofum og leita eftir samþykki nágranna. “Það finnst mér í raun algjör óþarfi. Þetta er mjög umhverfisvænt, hefur uppeldislegt gildi og það er mér til efs að það sé bæjarfélaginu til bóta að setja inn þessi ákvæði.”

Andrea sagði að þótt ekki væru mjög margir með hænur í bakgörðum sínum væri áhuginn fyrir því að aukast. Um 20 manns hefðu m.a. mætt á námskeið um hæsnahald í SÍMEY nýlega.  Hún sagðist fagna því að fólk vildi vera örlítið sjálfbært, þótt ekki væri nema til fá egg í bakstur.

Nýjast