Halloumi salat með chilli og jarðaberjum

Svala Steinbergsdóttir skoraði á Steinunni Jóhannsdóttur að koma með uppskriftir í Vikudegi, „hún er snillingur í eldhúsinu og lumar á ýmsu hollu og góðu,“ sagði Svala um Steinunni. Hún tók að sjálfsögðu áskoun Svölu.

„Halloumi osti kynntist ég í Bretlandi þegar systir mín bjó þar í nokkur ár og frábært að hann fáist hér á landi ;) Ég er búin að safna mér helling af halloumi uppskriftum og læt hér 2 af mínum uppáhalds ;) Það er langbest að mínu mat að grilla eða steikja Halloumi þó hann megi vissulega borða kaldan eins og hann kemur út pakkanum. Þetta er afar þéttur ostur og dálítið saltur. Kannski mætti lýsa honum sem blöndu af mozarella og fetaosti, bara mun þéttari í sér og frekar saltur. Hann er því góður í hvers kyns salöt eða rétti þar sem hann fær að njóta sín til fulls. Það góða við hann er að bræðslumark ostsins er afar hátt og því má auðveldlega steikja hann án þess að hann leki nokkuð út á pönnunni og hann má líka grilla á útigrilli. Ég mæli með því að þið verðið ykkur úti um þennan góða ost og prófið hann við fyrsta tækifæri.

Salatið:

2 pakkar halloumi (ca. 400 g)Þurrkað

óreganó

Ólífuolía

1 stór rauður chillipipar, smátt skorinn

1 poki blandað salat að eigin vali

1 bakki jarðarber, skorin í tvennt

3 vorlaukar, skornir í þunnar sneiðar

Nokkrar grænar ólífur

Safi úr ca. ½ sítrónu

Byrjið á að skera halloumi ostinn í ca. 0.5 cm þykkar sneiðar. Leggið sneiðarnar í fat, hellið ólífuolíu yfir og kryddið með þurrkuðu óreganó og helmingnum af chillipiparnum. Leyfið þessu að liggja í marineringunni á meðan þið útbúið restina af salatinu Setjið hinn helminginn af chillipiparnum í litla skál og hellið 3-4 msk. af ólífuolíu yfir ásamt smá sítrónusafa og hrærið saman, setjið til hliðar.

Setjið blönduð salatlauf á stóran disk (t.d. kökudisk).

Stráið yfir jarðarberjum, vorlauk og nokkrum ólífum.

Hitið stóra pönnu við háan hita , gott er að nota viðloðunarfría pönnu við þetta).

Setjið ostsneiðarnar á pönnuna og látið steikjast í 3 mínútur á hvorri hlið eða þar til osturinn er gullinnbrúnn.

Færið yfir á disk og leyfið ostinum að kólna örlítið áður en þið færið hann yfir á salatið.

Setjið hann svo yfir salatið og dreypið chilli olíunni yfir ásamt því að kreista dálítinn sítrónusafa yfir að lokum.

Berið fram t.d. með ísköldu þurru hvítvíni sem forrétt eða smárétt.

Halloumi með chillisósu.

Einn pakki haloumi ostur

Ein krukka chilisósa frá „Maxi“

 

Byrjið á að skera halloumi ostinn í ca. 0.5 cm þykkar sneiðar.

Steikið hann á heitri pönnunni með smá olíu.

Setjið á disk og berið fram með chillisósu frá „MAXI“. Mjög einfalt og fljótlegt og gott !

Þar sem ég nota hvorki hveiti né sykur þá er ég alltaf að prufa og þróa nýjar brauðuppskriftir, þetta brauð er í uppáhaldi núna ;)

Sæunnarbrauð

½ dl Kókoshveiti

1½ dl Möndlumjöl

2½ tsk. lyftiduft

5 tsk. Husk (stórar)

1½ dl blönduð fræ

2 góðar lúkur rifinn ostur

2 msk. sýrður rjómi

2 msk. mayonnese

5 egg

 

Allt hrært saman með sleif, láti standa meðan ofninn er að hitna. Sett í form og bakað við 180°C í 40 mínútur.

 

Fylltur kjúklingur með Brie osti (fyrir 4)

200 gr brie

4 msk pestó

4 msk olía

4 kjúklingabringa

12-16 sneiðar parmaskinka (má líka nota beikon)

 

Skerið bringuna í miðju, breiðið úr skinkunni og leggið bringuna ofan á. Smyrjið með pestói og síðan Brie osti. Vefjið skinkunni utan um bringuna og festið með tannstönglum. Steikið á pönnu ca. 5-7 mín á hvorri hlið - eða skellið á grillið.

Gott að hafa salat sem meðlæti.

Njótið.

Ég skora á vinkonu mína og frænku Önnu A. Arngrímsdóttir, stórkokk með meiru.

Nýjast