Halla eftir Jón Trausta sett á fjalirnar
Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra úthlutaði á dögunum 70,1 milljón króna til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði Eyþings, eins og komið hefur fram. Sjóðurinn er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019.
Eitt þeirra fjölmörgu verkefna sem hlaut styrk að þessu sinni er í höndum Margrétar Sverrisdóttur, leikkonu og prestfrúar á Möðruvöllum í Hörgárdal. Margrét útskrifaðist árið 2003 með BA-gráðu (Hons) í leiklist frá The Arts Educational School of Acting í London, hún hafði um skeið umsjón með Stundinni okkar á Rúv.
Styrkinn, sem hljóðar upp á eina milljón króna, hlaut hún til að skrifa leikgerð upp úr skáldsögunni Höllu eftir Jón Trausta og setja leikritið upp. „Ég ætla að skrifa þetta í júní, svo ætlum við að leika þetta núna í haust,“ segir Margrét í stuttu spjalli við dagskrain.is en hún hefur fengið reyndar leikkonur í lið með sér.
„Þetta verður leikið af þremur leikkonum, mér, Sesselíu Ólafsdóttur og Fanney Valsdóttur. Við lékum saman leikrit eftir Jón Gunnar Þórðarson sem heitir Þöggun við mjög góðar viðtökur. Ég ákvað að fá þær bara með mér í þetta,“ segir Margrét og vísar þarna til leikritsins Þöggunar sem frumsýnt var í mars á síðasta ári. Það verk er saga þriggja skáldkvenna, Ólafar frá Hlöðum, Skáld Rósu og Guðnýjar frá Klömbrum. Það fjalllar um þessar þrjár konur úr Eyjafirðinum, sem sáu um heimilið, búsýsluna og gerðu það sem ekki mátti, þær skrifuðu!
Leikritið Halla verður frumsýnt í haust í félagsheimilinu Hnitbjörg á Raufarhöfn. /epe.