Laxá í Aðaldal opnaði í gærmorgun þegar bændur og ættingjar frá Laxamýri veiddu svæðið fyrir neðan Æðarfossa. Frá þessu er greint á Facebooksíðu Laxár í Aðaldal
Að sögn Jóns Helga Björnssonar á Laxamýri þá veiddist ágætlega og urðu menn varir við talsvert mikið af fiski. Sett var í átta laxa og náðist að landa fimm af þeim. Það var systir Jóns, Halla Bergþóra Björnsdóttir, sem fékk fyrsta laxinn sem hún veiddi í Kistukvísl að vestan og reyndist vera 90 cm hængur. Hinir fjórir voru á bilinu 80 til 87 cm langir og voru að sögn Jóns bjartir og sérstaklega fallegir vorlaxar.
Sjá einnig: Ævintýralegt sumar í Laxá í Aðaldal
Eingöngu var veitt fyrir neðan Æðarfossa í gærmorgun en eftir hádegið var byrjað að veiða fyrir ofan. Sunnanátt hefur verið ríkjandi og við þær aðstæður gengur laxinn frekar upp Æðarfossa og því verður spennandi að sjá hvað veiðist þar, en fyrstu laxarnir sáust í kringum 20. maí.
Síðasta sumar var einstaklega gott í Laxá í Aðaldal og veiddist óvenju mikið af stórlaxi. Í samtali við Vikudag segir Jón Helgi að svipað virðist vera uppi á teningnum núna. „Það sést svona óvenju mikið og meira en menn áttu kannski von á. Þannig að menn eru bara bjartsýnir eins og alltaf,“ sagði hann.