Halda jólamarkað í Hvalasafninu á Húsavík

Björgvin Ingi Pétursson forstöðumaður Húsavíkurstofu. Mynd/epe
Björgvin Ingi Pétursson forstöðumaður Húsavíkurstofu. Mynd/epe

Húsavíkurstofa í samvinnu við Fimleikadeild Völsungs vinnur nú að því að festa í sessi skemmtilega jólahefð á Húsavík. Ákveðið hefur verið að halda jólamarkað í Hvalasafninu á Húsavík. Markaðurinn opnar 27. nóvember nk.  Því verður svo fylgt eftir með opnun dagana 10. – 12. desember. Markmiðið er að skapa lifandi jólastemningu, styðja við handverks,- og matvælaframleiðendur og Fimleikadeildin sér um veitingasölu sem er liður í fjáröflun deildarinnar. Vikublaðið ræddi við Björgvin Inga Pétursson forstöðumann Húsavíkurstofu.

Björgvin segir boðið verði upp á 6-10 bása fyrir hvern dag. Hægt sé að hafa samband við Húsavíkurstofu til að fá nánari upplýsingar.

„Við erum í samvinnu við Norðurþing og Fimleikadeild Völsungs sem verða með í þessu með okkur sem fjáröflun fyrir deildina. Fyrsti dagur jólamarkaðarins verður sama dag og kveikt verður á jólatré bæjarins,“ segir Björgvin.

Björgvin segist sjá fyrir sér að handversfólk og hópar sem og matvælaframleiðendur á svæðinu verði áberandi á jólamarkaðnum en einnig verði boðið upp á veitingar og afþreyingu. „Það verður veitingasala og eitthvað húllum hæ. Ég reikna fastlega með að jólasveinar kíki í heimsókn og sitthvað fleira. Úr því að þetta er fyrsta árið okkar þá vonumst við til þess að þetta verði geggjað,“ segir Björgvin og bætir við að vonir standi til þess að jólamarkaðurinn festist í sessi sem ómissandi jólahefð Húsavíkinga og mun vaxa og dafna með árunum. „Við erum komin með smá styrk til að kaupa jólaskreytingar og annað slíkt. Þetta er til þess gert að auka jólastemninguna í bænum og verður vonandi til þess að auka verslun í heimabyggð.“

Björgvin útskýrir að hugmyndin sé að hafa markaðinn inni í Hvalasafninu á neðri hæðinni. „Sýningargripir verða færðir til og annað en fólki er að sjálfsögðu frjálst að ganga um og skoða sig um þó að þetta verði ekki hvalasafn á meðan jólamarkaðnum stendur.“

Þetta er í fyrsta sinn sem Húsavíkurstofa stendur að jólamarkaði en undanfarin ár hefur Völsungur verið með jólamarkað í Borgarhólsskóla. „Það stóð reyndar ekki til að Völsungur yrði með markað í ár þar til við komum inn í þetta og förum í þessa samvinnu,“ útskýrir Björgvin og bætir við að það sé styrkur fyrir jólamarkaðinn að hafa fleiri aðila sem standa að verkefninu. Hann lofar góðri stemningu.

Leiguverði á sölubásum er stillt í hóf en hægt er að tryggja sér bás á 5000 krónur fyrir daginnn. „Ef við náum fullri skráningu þá eru það um og yfir 30 básar alls yfir þessa þrjá daga. Síðan mun Fimleikadeild Völsungs sjá um veitingasöluna. Kaffi, heitt súkkulaði, vöfflur og fleira góðgæti,“ segir Björgvin að lokum.

Grímuskylda verður á jólamarkaðnum og gestir hvattir til að virða eins meters regluna og sóttvarnir.

Smellið hér


Nýjast