Hagnaður hjá sveitarsjóði Hörgárbyggðar á síðasta ári

Sveitarstjórn Hörgárbyggðar hefur afgreitt ársreikning sveitarfélagsins og stofnana þess fyrir árið 2008. Rekstrartekjur A- og B-hluta sveitarsjóðs á árinu voru samtals 232 milljónir króna og rekstrargjöld voru 210 milljónir króna. Hagnaður af rekstri varð því 22 milljónir króna sem er 9,5%.  

Fjármunagjöld umfram fjármunatekjur urðu 17 millj. kr. og munar þar langmestu um gengistap, sem varð 18,6 millj. kr. Heildarniðurstaðan er því að hagnaður ársins varð 4,9 millj. kr. Efnahagsreikningurinn í lok ársins sýnir trausta stöðu, bókfært eigið fé var 59% af eignum, sem voru 420 millj. kr. Skuldir sveitarfélagsins í árslok voru 83% af skatttekjum ársins. Það hlutfall hækkaði verulega á árinu, enda námu fjárfestingar sveitarfélagsins á árinu alls 163,9 millj. kr., langstærstur hluti þeirra fólst í umfangsmiklum endurbótum á sundlauginni á Þelamörk. Þetta kemur fram á vef Hörgarbyggðar.

Nýjast