Hagkvæmni sameiningar heilbrigðisstofnana verði könnuð

Framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana á Norðurlandi hafa hist reglulega síðan í mars til að ræða frekari samvinnu og sameiningu stofnana. Skýrsla hefur verið skrifuð sem innanríkisráðuneytinu verður færð fljótlega. Samkvæmt heimildum Vikudags mun vera lagt til að kannað verði hvort hagkvæmt sé sameina  heilbrigðisstofnanir á Blönduósi, Skagaströnd og Sauðárkróki annars vegar og stofnanir í Fjallabyggð og á Dalvík hins vegar.

Jón Helgi Björnsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga á Húsavík, vildi ekki staðfesta þetta í samtali við Vikudag en sagði að hátt í 50 starfsmenn heilbrigðiskerfisins á Norðurlandi hafi verið að bera saman bækur sínar.

Menn hafa velt fyrir sér ýmsum kostum. Við munum afhenda heilbrigðisráðherra skýrslu um samantekt á okkar vinnu. Við reiknum með fundi við ráðherra strax eftir verslunarmannahelgi,” sagði Jón Helgi. Einnig mun vera lagt til að stofnanir hafi meira samráð vegna stoðþjónustu.

„Menn hafa verið að vinna saman, t.d. sameinað allan gagnagrunn á heilbrigðissviði á Norðurlandi og sameinast um að reka eitt rannsóknarkerfi. Þannig er hægt að ná fram hagræðingu og bættri þjónustu með samstarfi,“ sagði Jón Helgi, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um innihald skýrslunnar.

Nýjast