Akureyringurinn Guðlaugur Guðmundsson, eða Gulli eins og er þekktur í snjóbrettaheiminum, hafnaði í öðru sæti í keppni í rail á Air and Style snjóbrettamótinu sem haldið var í Austurríki sl. helgi. Um afar sterkt mót er að ræða en þetta er einn af stærstu viðburðum hvers árs í snjóbrettaheiminum. Alls voru tuttugu keppendur á mótinu víðsvegar úr heiminum. Fimm af þeim fengu boðsmiða beint inn á mótið, þar á meðal Gulli. Það er alltaf gaman að vinna til verðlauna. Ég vann þetta mót reyndar fyrir þremur árum síðan þannig að ég kann ágætlega við mig á þessu móti, sagði Gulli í samtali við Vikudag. Hann er einn af þremur Íslendingum sem er atvinnumaður á snjóbretti en hinir tveir eru bræðurnir Halldór og Eiríkur Helgasynir, sem einnig eru frá Eyjafirði. Gulli, sem er 25 ára, hefur verið atvinnumaður í fimm ár og er núna á samningi hjá erlendu fyrirtæki að nafni Bataleon Snowboard.
Hans helsta atvinna er þó ekki að keppa á mótum, heldur að búa til videoupptökur um allan heim fyrir bandaríska fyrirtækið Standard films, en fyrirtækið er að sögn Gulla eitt það virtasta í þessum bransa. Þetta virkar þannig að ég fer út um allan heim með upptökumenn með mér sem mynda það sem ég geri. Svo tekur maður eitt og eitt mót inn á milli og ég er þegar búinn að keppa á þremur mótum í vetur, segir hann, en Gulli var einmitt staddur í upptökum í Osló í Noregi þegar blaðamaður heyrði í honum hljóðið.