Hafna ásökunum um spillingu
Í yfirlýsingu sem oddvitar meirihlutans í bæjarstjórn Akureyrar sendu frá sér í kvöld segir að ávirðingum sem fram hafa komið um annarleg sjónarmið sé einfaldlega vísað til föðurhúsanna. Eins og sagt frá í dag sakaði Sigurður Guðmundsson fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri bæjarráð Akureyrar um spillingu í ferlinu þegar bærinn seldi KEA hlut sinn í fjárfestingafélaginu Tækifæri hf. fyrir 120 miljónir króna. Ásakanirnar koma fram í pistli sem Sigurður ritaði á Facebook-síðu sína.
„Það má alltaf gera betur í störfum sínum og það er eðlilegt að rætt sé með gagnrýnum hætti um sölu á hluti sem þessum. Af þeim sökum er ferlið í nánari skoðun. Alvarlegar ávirðingar sem hafa verið settar fram á hendur bæjarfulltrúum eða öðrum, sem komu að þessu ferli, dæma sig sjálfar enda eiga þær sér ekki stoð í veruleikanum,“ segja oddvitar meirihlutans í yfirlýsingunni.
Málið verður tekið fyrir bæjarráði í næstu viku og verður í kjölfarið send út yfirlýsing vegna málsins.