28. maí, 2020 - 12:19
Fréttir
Talsverðan reyk leggur enn frá húsnæðinu. Mynd/Slökkviliðið.
Slökkvistarf er enn í gangi í frystihúsinu í Hrísey. Tekist hefur að ná tökum á eldinum og verið er að slökkva í glæðum og kæla brunarústir. Talsverðan reyk leggur enn frá húsnæðinu og er áætlað að slökkvistarf muni halda áfram frameftir degi.
Þetta kemur fram á Facebooksíðu Slökkviliðsins á Akureyri en eins og fjallað hefur verið um í morgun kviknaði í frystihúsinu á eynni snemma í morgun.
Ekkert er vitað um eldsupptök að svo stöddu en vettvangur mun verða rannsakaður þegar aðstæður leyfa.