Hafa áhyggjur af þeim sem hlaupa frá hálfkláruðum byggingum

Töluvert hefur dregið úr uppbyggingu í Naustahverfi að undanförnu og nokkuð um að byggingaverktakar hafi fengið frest hvað varðar ákveðna reiti í hverfinu.  Hrafnhildur Karlsdóttir formaður hverfisnefndar Naustahverfis segir að þeir sem fengið hafi frest hafi hann flestir fram á næsta vor eða sumar og hafi þeir gengið frá reitum sínum svo sem lög gera ráð fyrir, m.a. að girða af þau svæði sem þeir hafa til umráða.   

"Við höfum hins vegar nokkrar áhyggjur af þeim sem virðast einfaldlega hafa hlaupið frá sínum byggingum hálfkláruðum, en eitthvað er um það að menn skilji eftir hálfbyggðar íbúðir á svæðinu og eru svo horfnir," segir hún.  Þannig standi eitthvað af grunnum í hverfinu án þess að fyrir þá sé girt og slíkt bjóði hættunni heim. Hrafnhildur segir ekki óeðlilegt í þessu árferði að dragi úr uppbyggingu í Naustahverfi og við því sé ekkert að gera, "óneitanlega hefur þetta ástand dregið úr mönnum kjark, flestir bíða eftir að sjá hverju fram vindur.  Ég vona samt og trúi því að dýfan hér fyrir norðan verði ekki eins djúp og á suðvesturhorni landsins, enda var uppsveiflan meiri þar en hér," segir hún.

Hún segir hverfisnefnd í góðu samstarfi við Akureyrarbær, einkum fulltrúa þriggja nefnda, skólanefndar, framkvæmdaráðs og skipulagsnefndar, eðli málsins samkvæmt þar sem um væri að ræða nýtt hverfi í uppbyggingu og að mörgu að huga.  "Við vinnum náið með fulltrúum bæjarins að ýmsum málum er varða hverfið en öllum er umhugað sem best takist til við uppbyggingu á þessu hverfi og reynt verði að koma í veg fyrir hugsanleg mistök fyrirfram, ekki eftirá," segir hún.

Nýjast