Hættir Lbhí rekstri kúabúsins á Möðruvöllum?

Í nýrri stefnumörkun Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri er gert ráð fyrir að skólinn hætti rekstri kúabúsins á Möðruvöllum ásamt fleiri áherslubreytingum á rekstri staðarins. Á fundi stjórnar Búnaðarsambands Eyjafjarðar og Búgarðs fyrir jól var til umræðu bréf frá rektor skólans en fram kom á fundinum að breytingar sem fyrirhugað er að gera á rekstri staðarins hafi ekki verið útfærðar nánar í bréfinu.  

Á fundinn komu þeir Ingvar Björnsson og Þóroddur Sveinsson til skrafs og upplýsinga fyrir stjórn. Í fundargerð kemur fram að Þóroddur leggur til að fenginn verði verktaki til að reka búið, en hugmynd Landbúnaðarháskólans er frekar í þá átt að finna kaupanda að bústofni og vélum, sem myndi áfram reka kúabú á staðnum.

Ingvar gerði þá tillögu að gengið yrði mun lengra og reynt að finna samstarfsaðila á svæðinu til að sameinast um rekstur staðarins í heild. Allir stjórnarmenn í búnaðarsambandinu og Búgarði eru sammála um að ef búfjárhald á staðnum leggist af hafi það veruleg neikvæð áhrif á tilraunastarf á Möðruvöllum svo og aðra starfsemi þar. Á fundinum var formanni og framkvæmdastjóra falið að skoða framkomnar hugmyndir og vinna áfram að málinu ásamt þeim félögum, Ingvari og

Þóroddi. Ágúst Sigurðsson rektor Landbúnaðarháskólans segir að viðræður standi nú yfir við Búnaðarsambandið og fleiri aðila um þátttöku í rekstri Möðruvalla, svo að halda megi þar áfram búrekstri. Hann segir málið enn á frumstigi og í raun ekkert af því að frétta, en unnið sé að framgangi málsins og vonandi skýrist fljótlega hvað út úr því komi. Þetta kemur fram í Bændablaðinu.

Nýjast