Hætt að mynda dagblöð og tímarit á Amtsbókasafninu og starfsfólki sagt upp

Jóna Kristín Einarsdóttir verkefnisstjóri, stendur hjá Öldu Ósk Jónsdóttur, sem var að skanna á Amts…
Jóna Kristín Einarsdóttir verkefnisstjóri, stendur hjá Öldu Ósk Jónsdóttur, sem var að skanna á Amtsbókasafninu í vikunni.

Nú um mánaðamótin var starfsstöð sem verið hefur á Amtsbókasafninu á Akureyri lokað, en þar fór fram skönnun á dagblöðum og tímaritum. Samningur var á milli safnsins og Landsbókasafns um starfsemina, en síðarnefnda safnið á tækin sem notuð voru. Síðastliðin ár hafa þrír starfsmenn verið að störfum á stöðinni og var á tímabili unnið við verkefnið frá kl. 8 á morgnana til 20 á kvöldin. Um 30 þúsund blaðsíður voru myndaðar í hverjum mánuði að jafnaði.

„Það er virkilega sorglegt að þurfa að hætta þessari starfsemi, hér hefur verið unnið mikið starf, starfsmenn hafa staðið sig einstaklega vel, bæði hvað varðar afköst og gæði. Fyrir liggja mörg mikilvæg verkefni á þessu sviði, en því miður er okkur tjáð að ekki séu til peningar í þetta verkefni," segir Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður. Amtsbókasafnið lagði í töluverðan stofnkostnað vegna verkefnisins á sínum tíma auk þess að leggja til húsnæði undir starfsemina og greiða laun starfsfólks, en það var gert samkvæmt samningi við Landsbókasafnið sem greiddi kostnað við verkefnið.

„Við höfum myndað íslensk dagblöð, öll stærstu blöðin og það gekk mjög vel framan af, en eftir hrun hvarf fjárveiting frá ríkinu til þessa verkefnis og undanfarin misseri höfum við unnið að einstökum verkefnum fyrir ýmsa aðila," segir Hólmkell og nefnir m.a. að allt upplag Æskunnar, Samvinnunnar, Fiskifrétta og fleiri sérblaða hafi verið mynduð og kostnaður greiddur af hagsmunafélögum sem tengjast málefninu. Þannig hafi t.d. Muninn, skólablað Menntaskólans á Akureyri, verið myndað á kostnað gamalla stúdenta. Öll blöð sem hafa verið mynduð eru aðgengileg á rafrænan hátt öllum þeim sem hafa nettengingu á vefsíðunni timarit.is.

Starfsfólki hefur nú verið sagt upp og búnaðurinn mun væntanlega liggja óhreyfður á safninu fram að áramótum og verður þá sendur suður á Landsbókasafn. „Við gerum okkur auðvitað vonir um að fá verkefni og ætlum þess vegna að hafa búnaðinn hér nokkra mánuði í viðbót. Það eru næg verkefni fyrir hendi á þessu sviði, þetta er ekki allt saman búið," segir Hólmkell, en að hans mati er t.d. mikilvægt að mynda héraðsfréttablöð og gera þau þannig aðgengileg almenningi á vefnum. „Auðvitað er gremjulegt að þurfa nú að pakka öllu saman og hætta þegar ærin verkefni eru fyrirliggjandi, starfsfólk og búnaður til staðar og það er hætt við að áralöng reynsla og þekking glatist," segir Hólmkell.

Nýjast