Kristinn Árnason í Hrísey hefur kynnt hugmynd sína um að hefja ræktun íslenska hænsnastofnsins í húsnæði sem Svínaræktarfélag Íslands á í eynni. Hann kynnti hugmynd sína á Atvinnu- og nýsköpunarhelgi sem haldinn var á Akureyri á dögunum og eins hefur hann rætt málið við ráðunaut hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar.
Ég hef fengið góð viðbrögð við þessari hugmynd, en enn sem komið er þá er málið enn á byrjunarstigi, segir Kristinn. Húsnæðið sem um ræðir er um 380 fermetrar að stærð og þar var áður einangrunarstöð Svínaræktarfélags Íslands til húsa. Starfsemi þess lagðist af um áramótin 2010-2011 og hefur húsið staðið autt í rúmt ár. Kristinn segir að lítið þurfi að breyta húsinu til að hefja þar hænsnarækt. Það þarf að laga húsnæðið að annarri starfsemi, en þær breytingar eru ekki kostnaðarsamar, segir hann.
Hugmyndir hans ganga út á að vera með allt að 1000 íslenskar hænur og stunda eggjaframleiðslu, afraksturinn gæti orðið um 500 egg á dag. Búskapurinn gæti að sögn Kristins skapað eitt ársverk í Hrísey. Eggin yrðu markaðssett innan heilsugeirans, enda Hrísey með lífræna vottun og búskapurinn yrði eins sjálfbær og hægt er að hugsa sér. Matarafgangar eyjaskeggja yrðu nýttir sem fóður fyrir hænsnin til viðbótar við tilbúið fóður.
Ég sé þetta fyrir mér þannig að eggin yrðu markaðssett sem egg frá hamingjusömum íslenskum landsnámshænum, segir Kristinn og telur markað fyrir slíka afurð vaxandi hér á landi. Hann segir að Hríseyingar hafi tekið vel í hugmyndina sem og aðrir sem heyrt hafi af henni. Íbúar eyjarinnar séu áhugasamir um að koma upp einhverri starfsemi í húsnæðinu sem um ræðir í stað þess að horfa á það tómt og ónotað.