Gunnlaugur: Verðskuldaður sigur

Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA var sáttur við sína menn í kvöld, eftir sannfærandi 3:0 sigur KA-manna gegn ÍR í 1. deild karla í knattspyrnu í Boganum. „Ég er bara gríðarlega ánægður með þetta. Við höldum markinu hreinu annan leikinn í röð og skorum þrjú mörk. Ég hefði kannski viljað að við myndum skora fleiri mörk miðað við færin sem við fengum en ég get ekki verið annað en sáttur og við verðskulduðum sannarlega þessi þrjú stig í kvöld,” sagði Gunnlaugur.

ÍR vann sterkan útisigur gegn BÍ/Bolungarvík í fyrstu umferðinni og Gunnlaugur segist hafa átt von á þeim sterkari.

„Ég verð að viðurkenna að ég bjóst við meiru frá þeim. Þetta er hins vegar flott start á mótinu hjá okkur og við vorum nokkuð ánægðir með síðasta leik þó að við höfum ekki náð að skora. Ég er líka mjög ánægður með hvað við náum að skapa mörg færi í kvöld,” sagði Gunnlaugur.

Guðlaugur Baldursson þjálfari ÍR bar sig vel eftir tapið og reyndi lítið að afsaka frammistöðu sinna manna.

„Við vorum lakara liðið og KA átti sigurinn skilið. Við náum ekki að fylgja sigri okkar eftir frá síðasta leik og þurfum að fara yfir um hverju það er að kenna. Við komumst aldrei í takt við leikinn í kvöld og náðum ekki uppi flæði í spilinu. KA-menn voru líka bara baráttaglaðari og þetta er gott lið. Við gerðum okkur alveg grein fyrir því hvað þeir myndu gera í kvöld, en þeir gerðu það bara það vel að við náðum ekki að verjast því,” sagði Guðlaugur.

„Þetta var frábær leikur hjá okkur,” sagði Haukur Heiðar Hauksson fyrirliði KA eftir leik. „Gulli (Gunnlaugur Jónsson) lagði upp með að byrja af krafti, þar sem þeir væru örugglega þreyttir eftir ferðalagið. Það gekk eftir og við náðum marki snemma. Við dettum aðeins niður í lok fyrri hálfleiks og þeir byrja aðeins að pressa. Við komum svo aðeins sterkari í seinni hálfleikinn. Við áttum bara frábæran leik í kvöld og það skilaði sigrinum,” sagði Haukur Heiðar.

Nýjast