Gunnlaugur: Þurfum að hafa meiri trú á þessu
Það hefur lítið gengið upp hjá KA-mönnum í 1. deild karla í knattspyrnu í síðustu leikjum. Eftir fína byrjun á Íslandsmótinu, þar sem KA náði í sjö stig af níu mögulegum í fyrstu þremur leikjunum, hefur allt legið niður á við og liðið tapað þremur leikjum í röð með markatölunni 1:6. Þar af voru tveir þessarar leikja á heimavelli.
Nú síðast tapaði KA illa gegn Fjölni, 1:4, á Þórsvelli sl. föstudag og ljóst að eitthvað er að í herbúðum norðanmanna. Eftir fyrstu sex leikina er KA með sjö stig í áttunda sæti.
„Því miður hefur gengið illa í síðustu leikjum. Við vorum klárlega verri andstæðingurinn gegn Haukum, Þróttur gengur á lagið í byrjun og Fjölnir klárar okkur í fyrri hálfleik,“ segir Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA í samtali við Vikudag. Hann segir engan vonleysistón vera í KA-mönnum þrátt fyrir slakt gengi í síðustu leikjum.
„Þetta mót er bara rétt að byrja en við þurfum klárlega að laga marga hluti og mæta ákveðnari til leiks. Það gengur ekki að gefa liðum forskot strax í öllum leikjum. Við þurfum bara að setjast niður og vinna í okkar málum. Það er ekkert flóknara en það.“
Aðspurður um hvað liðið þurfi að gera til snúa genginu sér í hag svararar Gunnlaugur:
„Við þurfum til að byrja með að hafa aðeins meiri trú á því sem við erum að gera. Við höfum sýnt fjölmörg andlit í þessum fyrstu leikjum. Kannski er skýringin sú að við erum með ungt og reynslulítið lið. Sveiflurnar eru bara miklar hjá þannig liðum. Núna þurfum við bara að koma til baka, ná sigri að nýju og það myndi gefa liðinu sjálfstraust,“ segir Gunnlaugur.
Næsta umferð í 1. deild karla fer fram á miðvikudaginn kemur og þá sækir KA lið Selfoss heim.