Gunnlaugur: Eins og höfuðlaus her

Gunnlaugur Jónsson þjálfari KA var að vonum ekki upplitsdjarfur eftir 1:4 tap sinna manna gegn Fjölni á Þórsvelli í kvöld í 1. deild karla í knattspyrnu. KA sá aldrei til sólar í leiknum en gestirnir gerðu út um leikinn á 40. mínútum. „Ég veit ekki hvar maður á byrja. Það er ljóst að við vorum eins og höfuðlaus her þarna inn á vellinum. Við byrjuðum mjög illa og það gekk lítið upp. Byrjunin í leiknum gefur tóninn og þeir ganga á lagið og valta yfir okkur. Þeir klára þetta bara fyrri hálfleik,“ sagði Gunnlaugur við Vikudag eftir leik.

Fjölnir fékk dæmdar tvær vafasamar vítaspyrnur í leiknum. Sú seinni var algjörlega glórulaus en KA-maðurinn Sigurjón Fannar Sigurðsson braut þá á Kristni Frey Sigurðssyni fyrir utan teig. Þarna hefði gult spjald og aukaspyrna verið sanngjarn dómur en dómarinn dæmdi vítaspyrnu og rautt spjald. Blaðamaður spurði Gunnlaug út þessa tvo vítaspyrnudóma. 

„Ég get bara dæmt út frá því þar sem ég sit og þeir orka báðir tvímælis. Það er hins vegar ekki ákvörðun dómarans sem gerir út um þennan leik heldur hugafar okkar. Seinni vítaspyrnudómurinn er tveimur metrum fyrir utan teig og hreinlega óskiljanlegt að línuvörðurinn hafi flaggað þarna. Sigurjón var ekki aftasti maður. Ég gæti alveg haldið reiðilestur um dómarana en þeir gera ekki útslagið í kvöld, það er alveg ljóst. Undarlegar ákvarðanir engu að síður,“ sagði Gunnlaugur.  

Ásmundur Arnarsson þjálfari Fjölnismanna var að vonum kampakátur með sína menn. Hann sagði yfirburði Fjölnis í leiknum hafa komið sér á óvart.

„Ég bjóst nú ekki alveg við þessu en hins vegar komum við hingað í norðanblíðu og gott andrúmsloft og þetta virðist bara hafa farið vel í okkur. Ég er mjög ánægður með strákana. Þeir stjórnuðu leiknum frá A til Ö og við sköpuðum færi og skorum fjögur mörk. KA-liðið var rólegra og bitlausra en ég bjóst við og þetta voru gríðarlega mikilvæg þrjú stig í kvöld," sagði Ásmundur.

Nýjast