Gunnar Valur til liðs við KA

Varnarmaðurinn Gunnar Valur Gunnarsson, sem hefur síðustu ár verið fyrirliði Fjölnis í Grafarvogi, hefur ákveðið að ganga til liðs við meistaraflokk KA í knattspyrnu og spila með félaginu næstu tvö ár. Samkomulag þess efnis var staðfest í dag. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.
Mig hefur lengi dreymt um að spila fyrir mitt gamla félag, enda náði ég aldrei á sínum tíma að spila í meistaraflokki KA. Ég tel að nú sé rétti tíminn til að halda á fornar slóðir, segir Gunnar Valur við heimasíðu KA en hann er uppalinn Akureyringur. Ég hef alltaf fylgst úr fjarlægð með gangi mála hjá KA, enda eru margir af mínum gömlu og góðu félögum grjótharðir KA-menn. Þeir hafa verið iðnir við að selja mér þá hugmynd að spila fyrir mitt gamla félag og ég keypti að lokum hugmyndina og hlakka til þess að takast á við þetta verkefni, segir Gunnar Valur.