Gunnar Már: Fínt að snúa blaðinu við
„Ég var virkilega ánægður með fyrri hálfleikinn. Við komum ákveðnir til leiks og náðum 2:0 forystu og hefðum getum komist þremur mörkum yfir. Þetta er öfugt við það sem við höfum verið að gera í síðustu leikjum og það var kominn tími á að byrja leikinn frá fyrstu mínútu. Eyjamenn sýndu mátt sinn í seinni hálfleik en við náðum að halda hreinu í seinni hálfleik og það skilaði þremur góðum stigum,” sagði Gunnar.
Heimir Hallgrímsson þjálfari ÍBV var ósáttur við tapið í kvöld. Eyjamenn voru betri í leiknum en fóru illa með mörg dauðafæri sem kostaði þá stigin
„Þetta átti aldrei að vera tap en svona er þetta stundum. Þórsarar börðust vel fyrir sínu og þeir unnu fyrir þessu. Við fengum urmul af færum en þetta er bara einn af þessum dögum sem ekkert gengur upp. Við fáum líka klaufaleg mörk á okkur í byrjun og það vantaði einhvern veginn að reka stóru tánna í boltann. Við sköpuðum okkur alveg nóg af færum til þess að klára leikinn en svona er þetta bara stundum,” sagði Heimir.
Með sigrinum í kvöld eru Þórsarar komnir með sex stig í ellefta sæti, jafnmörg stig og Víkingur R. sem hefur betri markatölu. Þórsarar eiga hins vegar leik til góða gegn FH á mánudaginn kemur. ÍBV hefur áfram 13 stig í öðru sæti.