Gunnar Konráðsson tilnefndur til Emmy verðlauna

Gunnar Konráðsson kvikmyndagerðamaður frá Akureyri hefur ásamt Jóhanni Sigfússyni verið tilnefndur til Emmy verðlauna fyrir heimildamyndina Iceland Volcano Eruption sem framleidd var af íslenska framleiðslufyrirtækinu ProFilm fyrir National Geographic. Jóhann er tilnefndur fyrir stjórn kvikmyndatöku (Director of Cinematography) og Gunnar fyrir bestu kvikmyndatöku (Outstanding Cinematography).  

Emmy verðlaunin eru ein þau virtustu í kvikmyndabransanum og verða afhent í byrjun september í Bandaríkjunum. Til marks um hve góður árangur þetta er hjá þeim félögum má nefna að bandaríski fréttaskýringaþátturinn 60 mínútur er tilnefndur í sama flokki, en einungis fimm verk eru tilnefnd í hverjum flokki fyrir sig. Í samtali við Vikudag segir Gunnar þetta mikinn heiður. „Þetta kom mjög skemmtilega á óvart og ég myndi halda að þetta væri einn mesti heiður sem hægt er að hlotnast. Þetta voru mjög skemmtilegar fréttir og nú bíðum við bara spenntir og sjáum til hvernig þetta fer," segir Gunnar. Hann segist þó ekki vera farinn að huga að þakkaræðunni ennþá. „Okkur finnst nú alveg nóg að vera bara tilnefndir og það yrði algjör bónus að vinna. Þetta eru allt virkilega flottar og vel gerðar heimildarmyndir þannig að hópurinn er sterkur. En maður veit aldrei," segir Gunnar.

Gerir heimildarmynd um bræðurna Halldór og Eirík

Gunnar er 28 ára gamall og lærði kvikmyndagerð í Madrid á Spáni. Hann hefur getið sér gott orð hérlendis sem erlendis en þættir sem hann framleiddi og myndaði sjálfur, Delicious Iceland, hafa verið sýndir um allan heim auk þess sem hann á ljósmyndir í tveimur íslenskum bókum sem eru að koma út um þessar mundir. Einnig sendi hann nýlega frá sér heimildarmyndina Amma auk þess sem hann framleiðir þættina Grillað sem nú eru sýndir á RÚV. Næsta heimildarmynd Gunnars verður um snjóbrettabræðurna frá Akureyri, þá Eirík og Halldór Helgasyni, en þar ætlar Gunnar að fylgja þeim bræðrum eftir í heilt ár víða um heim. „Ég ætla að elta þessa stráka og gera meiri heimildarmynd en þessar venjulegu snjóbrettamyndir, sem búið er að gera mikið af. Þetta verður eflaust mjög skemmtilegt verfkefni," segir hann.

Kvikmynd á döfinni

Þó að Gunnar hafi að mestu fengist við heimildarmyndagerð til þessa stefnir hann á að gera kvikmynd í fullri lengd þegar fram líða stundir. „Ég er nokkuð viss um að það gerist en ég er alls ekkert að flýta mér. Það er leikstjóri frá Kanada sem ég gerði tónlistarmyndband með sem er að vinna að handriti sem hann vill endilega kvikmynda með mér hér á landi. Hvort það verður næsta sumar veit ég ekki en hann stefnir á það. Þetta er ekkert komið neitt á veg ennþá en við sjáum til hvað verður," segir Gunnar.

Nýjast