Gunnar Bragi Mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum
Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra mælti í dag fyrir breytingum á búvörulögum, búnaðarlögum og tollalögum. Þessar breytingar eru forsenda nýgerðra búvörusamninga. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Gunnar Bragi segir samningana marka tímamót - þetta væri í fyrsta skipti sem samið er um alla búvörusamninga og búnaðarlagasamning í einu. Núverandi kerfi þyrfti að breyta, auðvelda nýliðun í stétt bænda og gera stuðningsformin almennari og minna háð einstökum búgreinum til að opna möguleika á nýtingu nýrra tækifæra.
Hann sagði jafnframt að helstu markmið samninganna væru að stuðla að aukinni framleiðslu búvara og bæta samkeppnishæfni landbúnaðarins og afkomu bænda. fjölbreytt framboð heilnæmra gæðaafurða á sanngjörnu verði til neytenda væri þannig tryggt og fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar eflt.
Í samningnum eru aukin framlög til aðlögunar að lífrænni framleiðslu og tekinn verður upp stuðningur við mat á gróðurauðlindum, geitfjárrækt, fjárfestingastuðningi í svínarækt og stuðning við framleiðslu skógarafurða. Þá væri mikilvægt að efla landbúnað sem atvinnugrein í dreifðum byggðum og stuðla að sjálfbærri landnýtingu. Á samningstímabilinu er gert ráð fyrir endurskoðun samninganna tvisvar, þ.e. árin 2019 og 2023.
Samningarnir voru undirritaðir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands 19. febrúar sl. af þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis. /epe.