Leikfélag Akureyrar býður uppá margar frábærar sýningar á seinni hluta leikársins. Sérstaklega má nefna stórsýninguna Gulleyjan sem LA setur upp í samstarfi við Borgarleikhúsið og er frumsýnd í Samkomuhúsinu þann 27. janúar. Í dag, fimmtudaginn 5. janúar klukkan 13:00 opnaði LA fyrir forsölutilboð á Gulleyjuna. Fyrstu 200 miðarnir eru á aðeins 2.900 krónur.
Tilboðið gildir ekki ef pantað er á netinu. Fólki er bent á að hringja í 4 600 200 eða mæta í miðsölu leikfélagsins í Samkomuhúsinu sem er opin á milli 13 og 17 alla virka daga.
Um helgina, 7. og 8. janúar, sýnir LA Gyllta drekann klukkan 20:30 í Rýminu. Þetta er gestasýning frá Borgarleikhúsinu og er tilfinningaþrungið gamanleikrit. Það verða aðeins þessar tvær sýningar og það er nú þegar uppselt á aðra og aðeins örfá sæti laus á hina. Þannig að það fer hver að verða síðastur til þess að skella sér á þetta frábæra verk í leikstjórn Kristínar Eysteinsdóttur. Frekari upplýsingar um sýningarnar og aðstandendur þeirra er að finna á www.leikfelag.is, segir í fréttatilkynningu.