Íslenska karlalandsliðið í íshokkí, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, sigraði á heimsmeistaramótinu í 3. deild sem fram fór í Nýja-Sjálandi á dögunum. Ísland vann Kína, 5-1, í lokaleik sínum á mótinu og tryggði sér gullið. Íslensku strákarnir lögðu einnig lið Tyrklands, Nýja-Sjálands og Búlgaríu að velli á leið sinni að gullinu. Með sigrinum tryggði Ísland sér einnig sæti í 2. deild. Fjórir leikmenn íslenska liðsins koma úr röðum Skautafélags Akureyrar; þeir Ingþór Árnason, Úlfur Einarsson, Sigurður Reynisson og Gunnar Darri Sigurðsson. Þá léku Akureyringarnir Jóhann Már Leifsson og Ingólfur Elíasson einnig með liðinu en þeir leika með félagsliðum erlendis. Þjálfari íslenska liðsins er Josh Gribben, sem einnig þjálfar Skautafélag Akureyrar.