Búið er nú þekktast fyrir framleiðslu og sölu á rjómaísnum Holtsels-Hnoss en hægt er að velja á milli 400 mismunandi uppskrifta við ísgerðina. Þá hefur hugmyndaflugið einnig fengið að ráða og verið gerður ís úr bjór (Kalda), skyri og jógúrt með hundasúrubragði að ógleymdum ís fyrir sykursjúka. Í Holtseli er jafnframt opið kaffihús og ísbar. "Í Holtsseli hefur verið sýnt fram á að hægt er að reka hefðbundinn landbúnað á snyrtilegan og jákvæðan hátt bæði gagnvart neytandanum, náttúrunni og dýrunum og að hægt er að vinna eftirsótta hágæða vöru úr íslensku hráefni og skapa ný störf á atvinnusvæði sem ein og önnur hefur þörf fyrir nýsköpun," sagði í umsögn um búið þegar viðurkenningar voru veittar.
"Þetta er mikil viðurkenning og við erum afskaplega ánægð með að fá hana," segir Guðmundur Jón. Hann sagði að ísgerðin hefði gengið vel á liðnu ári og þá færi vaxandi að gestir sæktu kaffihúsið heim. Það er opið frá vori og fram á haust og eins eftir samkomulagi láti menn vita um ferðir sínar fyrirfram. "Það er alltaf þó nokkuð um að við fáum hópa, þeir eru að líta inn til okkar af og til allt árið," segir Guðmundur Jón. Ísinn segir hann að menn geti nálgast hvenær sem heimafólk er við, "við afgreiðum hann öllum stundum svo framarlega sem við erum heima," segir hann.
Guðmundur Jón segir að sér lítist nokkuð vel á komandi sumar, útlit sé fyrir að Íslendingar ferðist meira innanlands en oft áður og gerir hann því allt eins ráð fyrir að straumurinn heim að Holtsseli verði jafn og þéttur. Sala á ís hefur verið með ágætum, en þó nefnir Guðmundur Jón að áhrif kreppunnar á íssölunnar séu þau að hún hafi heldur dregist saman í verslunum á höfuðborgarsvæðinu, en haldist svipuð í verslunum á landsbyggðinni.