Guðríður frá Lóni gefur út barnabók

Guðríður Baldvinsdóttir til vinstri. Hægra megin má skjá kápu bókarinnar.
Guðríður Baldvinsdóttir til vinstri. Hægra megin má skjá kápu bókarinnar.

Bókaútgáfan Sæmundur hefur gefið út barnabókina "Drengurinn sem dó úr leiðindum," eftir Guðríði Baldvinsdóttur.

Guðríður

 

Bókin fjallar um 12 ára strák, Kára Hrafn, sem verður fyrir því óláni að foreldrar hans taka frá honum öll snjalltæki og leikjatölvur og í staðinn fær hann skærgulan farsíma sem hentar bara risaeðlum.

Höfundur þekkir vel þá togstreitu sem getur myndast þegar foreldrar vilja draga úr tölvu- og snjalltækjanotkun barnanna en börnin eru alls ekki á sama máli. Aðstæður sem flestir foreldrar barna og unglinga kannast væntanlega við. Oftar en ekki eru viðbrögð barnanna þannig að stór hætta sé á að þau deyi úr leiðindum ef slökkt er á netinu eða sett á leikjatölvubann. Enda eru afleiðingarnar fyrirsjáanlegar fyrir söguhetju bókarinnar.

Hvað annað getur gerst en að Kári Hrafn hreinlega deyr úr leiðindum! En hvað tekur þá við? Framhaldið er æsispennandi og skemmilega óvenjuleg frásögn þar sem Kári Hrafn lendir í ýmsum ævintýrum og þarf að takast á við mjög óvenjulegar aðstæður.

Bókin er skrifuð fyrir 8-12 ára börn en hún er líka fjölskylduverkefni en káputeikning er eftir dóttur Guðríðar, Ásdísi Einarsdóttur nema í VMA, og sonur Guðríðar, Björn Ófeigur, handskrifaði texta fyrir söguhetjuna Kára Hrafn sem lífgar upp á bókina hér og hvar.

Guðríður er búsett í Lóni í Kelduhverfi þar sem hún starfar sem sauðfjárbóndi og rekur einnig ullarlitunarfyrirtækið Mórúni. "Drengurinn sem dó úr leiðindum" er hennar önnur barnabók, en áður er komin út bókin "Sólskin með vanillubragði" 2019 sem er nútímasaga um sveitastelpu og forystugimbrina hennar.

Barnabók


Athugasemdir

Nýjast