Guðmundur hættur sem sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit

Guðmundi Jóhannssyni hefur verið sagt upp störfum sem sveitarstjóri í Eyjafjarðarsveit. Guðmundur er staddur í Bandaríkjunum og hafði ekki fengið uppsagnarbréfið í hendur þegar Vikudagur ræddi við hann nú fyrir stundu en hann sagði að þessi ákvörðun sveitarstjórnar hefði komið sér algjörlega í opna skjöldu. Guðmundur er væntanlegur til landsins eftir helgi og sagði það mjög skrýtið að ekki hafi verið beðið með afgreiðslu málsins þar til hann kæmi heim.

 

Guðmundur sagðist ekki vita nákvæmlega hvað lægi að baki þessari ákvörðun og kannast ekki við að um samstarfsörðugleika hafi verið að ræða við sveitarstjórn. "En þeir hljóta að hafa margar ástæður og kannski hef  ég þótt of pólitískur," sagði Guðmundur, sem sjálfstæðismaður og var m.a. varabæjarfulltrúi á Akureyri fyrir  nokkrum árum. Hann tók við starfi sveitarstjóra sl. vor, eftir að Bjarni Kristjánsson, sem hafði verið sveitarstjóri í 10 ár, lét af störfum. Guðmundur vildi öðru leyti ekki tjá sig um málið en mun fara yfir stöðuna þegar hann kemur til landsins í næstu viku.

Eftirfarandi tilkynning barst frá sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar: "Guðmundur Jóhannsson hefur látið af störfum hjá Eyjafjarðarsveit. Sveitarstjórn þakkar Guðmundi unnin störf og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Arnar Árnason oddviti og Stefán Árnason skrifstofustjóri munu sinna störfum sveitarstjóra."

Nýjast