Guðfinna Jóhanna hjólar í Höskuld

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir

Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, er harðorð í garð Höskuldar Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins, í færslu á Facebook-síðu sinni í morgun.

Tilefnið er grein sem Höskuldur ritaði og birtist í Fréttablaðinu í morgun. Þar gagnrýnir hann skrif Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, um flugvöllinn í Reykjavík.

„Þessi persónulega óvild hans í garð Sigmundar er alveg vandræðaleg og endurspeglast í þekkingar- og áhugaleysi Höskuldar á flugvallarmálinu,“ segir í færslu Guðfinnu

Guðfinna gagnrýnir skrif Höskuldar harkalega og segir þau slá öll met í þekkingarleysi.

Í grein sinni í morgun setti Höskuldur verulega út á skrif Sigmundar Davíðs í Morgunblaðinu fyrir helgi þar sem SDG segir að hann hefði sett það sem skilyrði við undirritun samkomulags við borgina að horfið yrði frá því að semja um lokun neyðarbrautarinnar. Samkvæmt Höskuldi kemur þetta hvergi fram í samningum, dómum eða öðrum gögnum og telur þingmaðurinn þessar staðhæfingar Sigmundar Davíðs afar ótrúverðugar.

Höskuldur hefur boðað framboð gegn Sigmundi Davíð um fyrsta sæti í prófkjöri flokksins í Norðausturkjördæmi eins og raunar tveir aðrir þingmenn, þær Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir.  Þetta verður í þriðja sinn sem Höskuldur og Sigmundur takast á í kosningu innan Framsóknarflokksins - Höskuldur tapaði fyrir Sigmundi í formannskosningu fyrir sjö árum og í prófkjöri fyrir síðustu þingkosningar. Það má kannski segja að kosningabarátta sé hafin á milli þeirra.

Nýjast