Guðdómlegar hestakerruferðir í miðbænum

"Jú þetta er bara að fara af stað núna. Þetta er hreinn og klár túrismi,” segir sr. Arnaldur Bárðarson sóknarprestur í Glerárkirkju sem í dag hrinti af stað skemmtilegu verkefni í ferðamennsku í miðbænum á Akureyri. Arnaldur er með nokkra hestvagna á ferðinni og býðst til að fara með ferðamenn úr skemmtiferðaskipunum í ferðir inn í Minjasafn og eða í hringferðir um miðbæinn og eyrina. "Þetta er einmitt það sem vantaði - alveg guðdómleg hugmynd," sagði veitingamaður í miðbænum við Vikudag síðdegis.

Einn vagninn smíðaði Arnaldur sjálfur en auk þess að vera laghentur kerrusmiður og sóknarprestur er hann kunnur hestamaður. Auk heimasmíðaða vagnsins er Arnaldur með tvær gamlar antík kerrur í notkun og lítinn léttvagn.  Hann segir í samtali við Vikudag að hugmyndin um hestakerruferðir hafi fengið góðar viðtökur og menn hafi virst telja að þörf hafi verið fyrir framboð á skemmtiferðum fyrir ferðamann og m.a. hafi hann fengið stuðning frá Ferðamálastofu.
Hestakerruferðirnar kalla á talsverða útgerð og auk þess að hafa tiltæk hross og vagna þurfa að vera fyrir hendi eklar sem kunna til verka og mun einhver mannskapur verða með Arnaldi í þessu, “ enda er ég bundnn af ýmsum embættisskyldum”, segir hann.
Aðspurður um hvort hann hafi velt fyrir sér að bjóða upp á einhverja sérpakka s.s. giftingu og hestvagnsferð segir Arnaldur allt koma til greina enda óvíst hvort hann geti verið hvort tveggja í senn ekill og prestur. “En hver veit hvað fólki dettur í hug, ég á að gefa brúðjón saman um borð í Húna á næstunni og ef fókl vill giftast úti á sjó, því ætti ekki einhver að vilja giftast í hestvagni,” segir hann!

Arnaldur og samstarfsmenn hann hafa hugsað sér að vera íklæddir klæðum sem auglýsa íslenskt handverk, lopapeysum og þess háttar, en einnig muni þeir fá lánaða búninga í leikhúsinu til að klæðast þegar þeir eru að aka um á antík-vögnunum.

Nýjast