Guðbjörg hannaði Jólaskraut Póstsins

Guðbjörg Ringsted myndlistarkona á Akureyri fékk það verkefni að hanna Jólaskraut Póstsins, ásamt jólafrímerkjunum fyrir þetta ár. Þetta er sjötta árið í röð sem Pósturinn býður viðskiptavinum sínum upp á Jólaskrautið og er Guðbjörg þriðji Akureyringurinn sem fær þetta verkefni. Sveinbjörg Hallgríms myndlistarkona sá um þetta verkefni í fyrra og Hugrún Ívarsdóttir á Laufabrauðssetrinu árið 2007.
Jólaskrautið er í þetta sinn byggt á þeim ríka þjóðlega arfi sem útsaumsmynstrin í íslenska þjóðbúningnum eru. Vísað er í baldýringu sem þekkt er víða um heim þar sem notaður er silfur- eða gullþráður. Í pakkanum eru fjórir 8 cm jólaóróar úr látúni með gullhúð í gylltu bandi. Jólaóróarnir fást einnig í silfurlit. Auðvelt er að hengja þá upp eða koma þeim fyrir á annan hátt.