Grunnskólakennarar á Húsavík fylltu stjórnsýsluhúsið

Grunnskólakennarar úr Borgarhólsskóla á Húsavík gengu fylgtu liði inn í stjórnsýsluhús Norðurþings um miðjan daginn í gær. Þar afhentu kennarar kröfugerð sem undirituð var á þremur dögum af yfir þrjú þúsund grunnskólakennurum alls staðar af landinu. Það er tæplega sjötíu prósent allra grunnskólakennara á landinu.
Kennarar mótmæla harðlega kjarastefnu sveitarfélaganna gagnvart grunnskólakennurum. Það var Jón Höskuldsson fræðslufulltrúi Norðurþings sem veitti áskorun kennaranna viðtöku fyrir hönd sveitarfélagsins.
„Mánuðum saman hafa sveitarfélögin haft tíma og tækifæri til að bregðast við bráðum vanda. Ekkert bólar á viðbrögðum og samninganefnd sveitarfélaga virðist enn ekki hafa umboð til neins nema að endurtaka leikinn frá því í sumar og bjóða áfram óboðleg kjör. Margir fulltrúar sveitarfélaga hafa gengist við því á síðustu árum að laun kennara séu allt of lág. Hin lágu laun hafa verið réttlætt með því að sveitarfélögin hafi ekki efni á betri kjörum. Með því er í raun verið að segja að sveitarfélögin séu ófær um að reka þá grunnþjónustu sem þau hafa tekið að sér fyrir íbúa þeirra. Slíkt gengur auðvitað ekki til lengdar. Við aðstæður sem þessar mun grunnþjónustan bíða skaða eða eyðileggjast með öllu,“ segir m.a. í kröfugerðinni.
Kolbrún Ada Gunnarsdóttir trúnaðarmaður kennara afhenti kröfugerðina eftir að hafa lesið hana upp. Þá tók Hjálmar Bogi Hafliðason, grunnskólakennari til máls og sagði meðal annars að grunnskólakerfið sjálft væri komið að ögurstundu.
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings kvað sér einnig hljóðs. Hann viðurkenndi að staðan væri ekki eins og best væri á kosið en sagði þó að sú grunnskólaþjónusta sem veitt væri á Húsavík væri mjög góð og að kennarar fengju allt of sjaldan það klapp á bakið sem þeir ættu skilið.
Deilunni vísað til ríkissáttasemjara
Félag grunnskólakennara fundaði í gær með Sambandi sveitarfélaga en ekkert þokaðist í viðræðunum og hefur deilunni verið vísað til ríkissáttasemjara. „Félag grunnskólakennara hefur í þessum viðræðum lagt áherslu á að ná fram meiri launahækkunum en voru í felldum samningum ásamt breytingu á vinnuumhverfi. Því miður náðist ekki samkomulag um nýjan kjarasamning og er það mat samninganefndar að of mikið beri í milli aðila til að samningar hefðu tekist á næstunni,“ segir í bréfi sem samninganefnd FG sendi félagsmönnum sínum í gærkvöld.
Grunnskólakennarar hafa fellt tvo síðustu samninga sem nefndin hefur lagt fram. Það er því ekki ofsögum sagt að mikil óánægja sé innan stéttarinnar.
- Nánar verður fjallað um málið í Skarpi sem kemur út á fimmtudag.