Grótta og KA/Þór skildu jöfn

Katrín Vilhjálmsdóttir skoraði sjö mörk fyrir KA/Þór í kvöld.
Katrín Vilhjálmsdóttir skoraði sjö mörk fyrir KA/Þór í kvöld.

KA/Þór á hverfandi möguleika á því að komast í úrslitakeppni N1-deildar kvenna í handknattleik eftir jafntefli gegn Gróttu á Seltjarnarnesi í kvöld, 23-23. Grótta var stigi á undan KA/Þór fyrir leikinn í kvöld og jafnteflið fer langt með að tryggja Gróttu sjötta og síðasta sætið inn í úrslitakeppnina. Fyrir lokaumferðina á laugardaginn kemur er Grótta í sjötta sætinu með tíu stig en KA/Þór hefur níu stig í sjöunda sæti. KA/Þór tekur á móti Íslands-og bikarmeisturum Vals í lokaumferðinni og til þess að ná sæti í úrslitakeppninni þurfa norðanstúlkur að vinna Val og treysta á að Stjarnan vinni Gróttu á sama tíma.

KA/Þór byrjaði leikinn gegn Gróttu af krafti í kvöld og skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins en Grótta sneri leiknum sér í hag og hafði þriggja marka forystu í hálfleik, 12-9. Seltirningar komu beittari inn í seinni hálfleikinn og héldu forystunni lengi vel í seinni hálfleik en þegar fjórar mínútur lifðu leiks náðu gestirnir að norðan að jafna. Hvorugu liðinu tókst að knýja fram sigur og lokatölur 23-23. Sunna María Einarsdóttir var markahæst í liði Gróttu með níu mörk en Katrín Vilhjálmsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs með sjö mörk og Martha Hermannsdóttir skoraði sex mörk.

Nýjast