Grófin - geðverndarmiðstöð opnuð á Akureyri

frá Akureyri
frá Akureyri

Grófin - geðverndarmiðstöð verður formlega opnuð á Akureyri á Alþjóðlega geðheilbrigðisdaginn, 10. október, kl. 16. Grófin er til húsa að Hafnarstræti 95, 4.hæð og í tilefni af opnuninni verður opið hús daglega vikuna 7. til 11. október milli kl. 13 og 16. Hápunktur vikunnar er síðan Geðveik messa í Akureyrarkirkju, fimmtudaginn 10. október kl. 20.00.


Markmiðið með starfseminni er að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir að vinna í sínum bata eftir hugmyndafræði valdeflingar. Jafnframt að skapa vettvang fyrir alla þá sem vilja vinna að geðverndarmálum á jafningjagrunni, hvort sem þeir kallast notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, fagaðilar, aðstandendur þeirra sem glíma við geðraskanir, eða eru einfaldlega áhugamenn um framfarir í geðheilbrigðismálum.  Miðstöðin mun einnig standa fyrir fræðslu og hópastarfi fyrir aðstandendur.


Kjarni starfseminnar eru tveir vikulegir „kjarnafundir“, þar sem teknar eru ákvarðanir um framvindu starfsins. Þróun starfsins ræðst því alfarið af frumkvæði þátttakenda og sameiginlegum ákvörðunum hópsins.  Í samræmi við hugmyndafræði valdeflingar var nafn miðstöðvarinnar valið á kjarnafundi. Niðurstaðan var stutt og fallegt íslenskt nafn, Grófin, sem dregið er af nálægu kennileiti, Grófargili. 
Það er Geðverndarfélag Akureyrar og nágrennis sem stendur að opnun Grófarinnar, en fyrirmynd og hvatning er sótt til 10 ára farsæls starfs Hugarafls í Reykjavík.

Nýjast