Grímseyjardagur haldinn í fyrsta sinn

Það verður mikið um að vera í Grímsey um helgina en þá verður í fyrsta sinn efnt til Grímseyjardags. Upphitunin hefst í kvöld með kráarkvöldi á Kríunni en á morgun  laugardag verður fjölbreytt dagskrá frá morgni til kvölds.Ragnhildur Hjaltadóttir í Grímsey segir að allir eyjarskeggjar komi að þessu verkefni með einum eða öðrum hætti en að verið sé að útvíkka það glæsilega sjávarréttahlaðborð kvenfélagsins sem boðið hefur verið upp á í félagsheimilinu til fjölda ára.

Konurnar hafa þá komið með sinn sjávarrétt, svo úr hefur orðið hið glæsilegasta veisluhlaðborð. Ragnhildur segir að fólk víða að hafi sýnt því áhuga að koma á hátíðina, frá Húsavík, Akureyri, Dalvík og Reykjavík sem dæmi. Ragnhildur segir þó ómögulegt að segja til um þátttöku, veðrið hafi verið einstaklega leiðinlegt í Grímsey að undanförnu en hún er vongóð um veðrið verði mun skaplegra um helgina.

“Verðum við ekki að vera bjartsýn, það þýðir ekkert annað.” Gestir geta farið til Grímseyjar bæði með ferjunni Sæfara frá Dalvík í dag föstudag og til baka á mánudag og þá verður flogið frá Akureyri í dag og á sunnudag. Alls eru 24 herbergi í boði á gistiheimilunum tveimur “og ef það koma fleiri, þá reddum við því,” segir Ragnhildur.

Liður í dagskránni á morgun verður sýning á bjargsigi en einnig verður kríueggjaleit, ratleikur, boðið verður upp á siglingu og fleira. Botninn verður svo sleginn í dagskrána í félagsheimilinu Múla annað kvöld, með sjávarréttahlaðborðinu og dansleik, þar sem Grímeyjarættaðir stuðboltar leika fyrir dansi.  

“Í þessari bítlahljómsveit eru fjórir bræður úr Grindavík, sonur eins þeirra og sonur minn. Þetta eru miklir gleðipinnar og þeir ætla að vera með bítlalög og fleira, þannig að þetta verður mikið fjör,” segir Ragnhildur.  

Nýjast