Íbúaþing verður haldið í Grímsey helgina 20.-21. febrúar þar sem farið verður yfir stöðu mála og framtíðarsýn eyjunnar. Grímsey er hluti af verkefninu „Brothættar byggðir“, en markmiðið með verkefninu er að efla byggð á viðkomandi stað, m.a. að fá fram skoðanir íbúanna sjálfra á framtíðarmöguleikum heimabyggðarinnar og leita lausna á þeirra forsendum í samvinnu við ríkisvaldið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélag, sveitarfélagið, brottflutta íbúa og aðra. Helga Íris Ingólfsdóttir, verkefnastjóri brothættra byggða í Hrísey og Grímsey, segir að fundurinn hafi upphaflega átt að fara fram í lok janúar, en hafi verið frestað þar sem enn sé beðið eftir niðurstöðum úr viðræðum útgerðarmanna í Grímsey við Íslandsbanka vegna skulda útgerðamanna í eynni við bankann.