Kælismiðjan Frost ehf. á Akureyri og Skaginn hf. á Akranesi hafa skrifað undir samninga um sölu á stórri verksmiðju til vinnslu á uppsjávarfiski til fyrirtækis í Færeyjum. Frost mun einnig sjá um uppsetningu á frystikerfi í nýja 20.000 m3 frystigeymslu. Fjöldi fyrirtækja kemur að verkefninu en útflutningsverðmæti samningsins er hátt í þrír milljarðar króna. Gríðarlegur uppgangur hefur verið hjá Frost síðustu ár og auk verkefnisins í Færeyjum, eru fleiri stór verk í gangi, eða að fara í gang og því þarf að fjölga um tugi starfsmanna næstu mánuði. Veltan hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár, m.a. um einn milljarð frá árinu 2005. Guðmundur Hannesson, sölu- og markaðsstjóri segir að velta Kælismiðjunnar hafi verið 1.350 milljónir króna í fyrra og árið það besta í sögu fyrirtækisins, bæði hvað varðar veltu og árangur. Ég átti ekki von á að sá árangur yrði toppaður en við erum nú þegar komnir upp í nánast sömu veltu, þessa fyrstu mánuði ársins.
Fyrir utan þetta stóra verk í Færeyjum, er Frost að setja frystikerfi í kanadískt skip í Póllandi og er að fara í svipað verknefni í Örfirisey, togara HB Granda í Reykjavík. Þá eru starfsmenn fyrirtækisins að ljúka niðursetningu á nýju frystikerfi í togarann Normu Mary, sem er í eigu dótturfélags Samherja í Bretlandi. Sú vinna hófst í Póllandi en er að ljúka á Akureyri. Eftir páska verður svo hafist handa við stórar breytingar á sjávarfrystikerfi fyrir Ísfélagið í Vestmannaeyjum.
Guðmundur segir að þetta sé líka heilmikil búbót fyrir Rafeyri á Akureyri, sem fylgir Kælismiðjunni í þessi verkefni. Þá hafa Frost, Rafeyri og Slippurinn unnið mikið saman og fengið stór verkefni í erlendum skipum til Akureyrar. Guðmundur segir það sérstaklega ánægjulegt hversu vel íslensk fyrirtæki standast samkeppnina á þessum opna evrópska markaði, þar sem eru margir um hituna. Lykillinn að þessu öllu er starfsfólkið. Það er auðvelt fyrir mig að selja þessi verkefni, þegar maður hefur svona mannskap á bak við sig, segir Guðmundur.