Gríðarleg tækifæri í nýtingu glatvarma

Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE.
Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóri SSNE.

Fólksfjölgun á Norðurlandi eystra er undir landsmeðaltali. Vikublaðið ræddi við Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóra Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og spurði út í hvaða tækifæri hann sjái til að snúa þeirri þróun við.

Eyþór segir að grunnforsenda fyrir fólksfjölgun sé fjölbreytt atvinnutækifæri en auk þess skipti samgöngur, aðgengi að heilbrigðisþjónustu, menntun, menningu og afþreyingu gríðarlegu máli.

Í því samhengi nefnir hann undirbúning við vinnslu á stórþara á Húsavík. Við förum mjög líklega að sjá fyrir endann á fjármögnunarferli þar þannig að hægt verði að hefjast handa,“ segir hann en reiknað er með að full vinnsla geti skapað 100 stöðugildi.

Þá nefnir hann MýSköpun ehf. en það er nýsköpunarfyrirtæki í Mývatnssveit sem er ætlað að auka nýsköpun og atvinnuþróun á svæðinu. „Þar er þegar unnið að verkefni sem snýr að rannsóknum, ræktun, þróun og framleiðslu á þörungum sem er að finna í Mývatni, t.d. úr spírulínu. Þar er horft til þess að fjölnýta auðlindir og orku á svæðinu.“

Eyþór minnir einnig á fyrirheit ríkisstjórnarinnar um störf án staðsetningar. „Ríkisendurskoðun er að opna starfsstöð á Akureyri og Persónuvernd að opna starfsstöð á Húsavík. Þjóðskrá hefur nú um skeið verið með hálft stöðugildi í Grímsey. Svo erum við í auknum mæli að sjá störf auglýst án staðsetningar. Ég nefni þetta hér í þessu sambandi vegna þess að það er mikilvægt að horfa til þess að auka fjölbreytni starfa og styrkja þannig atvinnulífið í landshlutanum,“ segir hann.

Mikilvægi nýsköpunar

Þá bendir Eyþór á mikilvægi nýsköpunar í atvinnumálum. Til lengri og skemmri tíma sé það sem SSNE sé að horfa til; enda sé mikilvægt að leita lausna í atvinnumálum er viðkemur grænum lausnum.

„SSNE er til dæmis þátttakandi í verkefni með Þekkingarneti Þingeyinga um uppbyggingu frumkvöðlaseturs á Húsavík sem fengið hefur nafnið „Hraðið“ og það verður spennandi að taka þátt í því og fylgja úr hlaði,“ segir Eyþór.

 Risa gróðurhús

Eimur er samstarfsverkefni SSNE, LandsvirkjunarNorðurorku og Orkuveitu Húsavíkur. Markmiðið með verkefninu er að auka nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi og bæta nýtingu orkuauðlinda. Verkefninu er ætlað að byggja upp atvinnulíf á svæðinu og auka verðmætasköpun þar sem sérstök áhersla er lögð á sjálfbærni, grænar lausnir, nýsköpun og hátækni.

Eimur, SSNE, SSNV, Nýsköpun í Norðri og Hacking Hekla teymið stóð fyrir viðburði frá 15. apríl til 18. apríl hér á Norðurlandi. Viðburðurinn hófst með kraftmikilli vefstofu þar sem Vísindamenn frá Háskólanum í Wagenigen í Hollandi og verkefnastjóri Earth 2.0 sögðu frá skýrslu um risagróðurhús sem unnin var fyrir fjárfestinn David Wallerstein. „Þar voru möguleikar Íslands kannaðir. Spurningum svarað  eins og hver er auðlindaþörfin fyrir svona gróðurhús á Íslandi? Myndi það borga sig að rækta vissar tegundir til útflutnings? En fyrir innanlandsmarkað?  Um tveir þriðju hlutar grænmetisframleiðslu á landinu fer fram á Suðurlandi, ekki nema um 8% eru hér á Norðurlandi. Innlend grænmetisframleiðsla annar ekki nema um 43% af innlendri eftirspurn. Sem dæmi má nefna að árlega eru flutt inn um 3000 tonn af berjum og innanlandsframleiðsla annar sáralitlum hluta,“ útskýrir Eyþór og hvetur alla áhugasama til að vera með á vefstofunni og heyra af áhugaverðum niðurstöðum fyrir gróðurhús á Íslandi.

„Ottó Elíasson, rannsókna- og þróunarstjóri Eims segir sannarlega mikil tækifæri til bættrar nýtingar þeirrar orku sem þegar hefur verið sótt í iður jarðar. Sem dæmi nefnir hann að í dag nýtum við einungis um 29% af þeirri jarðvarmaorku sem kemur upp úr jörðinni hér á Norðurlandi eystra. Um 71% þessarar orku er ónýtt. Þetta er glatvarmi og þar eru gríðarleg tækifæri.“

Nú líður að alþingiskosningum, hvaða málefni myndir þú vilja koma á dagskrá í kosningabaráttunni er varða Norðurland eystra?

„Ég myndi mjög gjarnan vilja að horft verði í auknum mæli til Sóknaráætlana landshlutanna og sá vettvangur nýttur til að beina fjármagni til uppbyggingar á landsbyggðunum. Það hefur sýnt sig að sá vettvangur er hagkvæmur, skilvirkur og traustur. Án þess að búa til yfirbyggingu og flókna umsýslu má með fjármögnun auka slagkraft landshlutasamtakanna til að leysa margvísleg verkefni þar sem til staðar er víðtæk þekking á atvinnuráðgjöf, menningarmálum og nýsköpun.

Samgöngur þarf að bæta, sinna viðhaldi gatnakerfis og byggja upp samgöngumannvirki.  Við búum að landssvæði þar sem veðurfar getur haft umtalsverð áhrif á samgöngur og draga þarf úr slíkum áhrifum eftir fremsta megni. Það er ekki síður mikilvægt að stytta vegalengdir, það hefur mikil áhrif á atvinnulíf og mannlíf.

Að lokum nefni ég raforkuöryggi. Við horfum nú til verkloka á tengingunni Fljótsdalur, Krafla, Rangárvellir sem mun bæta raforkuöryggi á starfsvæði SSNE mikið og þá sérstaklega í Eyjafirði. Engu að síður tel ég rétt að ítreka mikilvægi endurnýjunar á flutningskerfinu áfram þ.e. í Hvalfjörð til að tryggja raforkuöryggi í meginflutningskerfinu, nýta samspil ólíkra virkjana og minnka tap í kerfinu. Einnig er rétt að minna á mikilvægi þess að tengja Kópasker, til Vopnafjarðar og skilgreina það sem hluta af meginflutningskerfinu,“ segir Eyþór Björnsson.


Athugasemdir

Nýjast