Götur Akureyrar þvegnar til að sporna við svifryki

Götusópari á ferðinni á Akureyri. Götur bæjarins verða fyrst sópaðar, síðan þvegnar og loks sópaður …
Götusópari á ferðinni á Akureyri. Götur bæjarins verða fyrst sópaðar, síðan þvegnar og loks sópaður á ný.

Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hefur samþykkt að farið verði í að þvo götur bæjarins. Ekki var gert ráð fyrir framkvæmdinni í fjárhagsáætlun bæjarins og því er óskað eftir viðauka til bæjarráðs að upphæð kr. 8.500.000 til verkefnisins.

Götur Akureyrarbæjar voru síðast þvegnar árið 2012 á 150 ára afmæli kaupstaðarins. Rut Jónsdóttir, forstöðumaður umhverfis- og sorpmála, segir í samtali við Vikudag að ekki hafi fengist fjármagn í að þvo götur bæjarins undanfarin ár.

„En við teljum brýnt að fara í þetta núna. Í umhverfis-og samgöngustefnu Akureyrarbæjar er talað um aðgerðir til að minnka svifryk í andrúmsloftinu og þetta er ein af þeim aðgerðum,“ segir Rut, en loftgæði á Akureyri voru til umræðu á síðasta fundi umhverfis-og mannvirkjaráðs.

Fyrirtækið Hreinsitækni mun sjá um þrífa göturnar og er áætlað að þvottur hefjist seint í næstu viku. Göturnar verða fyrst sópaðar, síðan þvegnar og loks sópaður á ný. Þvotturinn mun taka nokkrar vikur.

Nýjast