Götuhornið - Gamlingi á villigötum

Bréfritari veltir fyrir sér rafrænni stjórnsýslu
Bréfritari veltir fyrir sér rafrænni stjórnsýslu

Mig hefur lengi langað til að senda bréf til Götuhornsins.  Mér hefur legið ýmislegt á hjarta og fannst það eiga fullt erindi til lesenda.  Þetta hefur þó ekki getað orðið fyrr en nú vegna vandræða sem ég lenti í og þurfti að greiða úr.

Eins og allir vita er íslensk stjórnsýsla nú orðin það sem kallað er rafræn. Eins og öll önnur opinber verkefni fór þessi vegferð af stað án þess að menn hefðu almennilega ákveðið hvert leiðin átti að liggja og síðan verkefnið hófst hafa farið í það gríðarlegir fjármunir án þess að nokkur maður skilji hvernig og hvert þeir hafa farið.  Ekki hefur þetta þó verið til einskis því að nú er kominn upp þessi líka fíni stafræni múr milli almennings og stjórnsýslunnar.  Engin leið er að komast í samband við starfsmennina sem afgreiða málin og maður hefur það á tilfinningunni að hinum megin við vegginn sitji starfsfólk sem prenti öll rafrænu gögnin út á pappír sem síðan er staflað upp og borinn á milli herbergja þar til annar starfsmaður hefur tryggt að ég hafi krossað í rétta reiti og borið þá saman við upplýsingar sem eru hjá stjórnvöldum um sömu atriði.

En það var nefnilega þannig á dögunum að ég þurfti að fara inn á island.is til að endurnýja vegabréfið mitt. Fyrir þá sem ekki vita þá þurfti maður áður að fara til sýslumanns til að gera það en eftir stafrænu byltinguna getur maður gert það á netinu.  Maður þarf reyndar að fara líka til sýslumanns. Hagræðingin felst nefnilega í því að það sé hagfelldara og auðveldara að gera þetta á tveimur stöðum í stað eins. En hvað um það þá fór ég þarna inn og fylgdi leiðbeiningum eins og best ég gat.  Allt leit vel út - þangað til seinna sama dag að það hringdi í mig fréttamaður og fór að spyrja mig allskonar spurninga um skógrækt og fleira. Ég varð svolítið hissa og þegar ég bað um skýringar sagðist hann vera að spjalla við verðandi forsetaframbjóðendur. Mér varð þá ljóst að í ógáti hafði ég boðið mig fram til að verða forseti Íslands í stað þess að endurnýja vegabréfið mitt. Ég fékk sonarson minn til að hjálpa mér og hann sá að ég hafði ekki bara farið í forsetaframboð, heldur líka sótt um og fengið safnaraleyfi fyrir hríðskotariffli, leyfi til að ættleiða barn frá Norður-Kóreu og markaðsleyfi fyrir nýtt stinningarlyf.  Það hefur tekið mig talsverðan tíma að vinda ofan af öllu þessu.

Loksins þegar ég var búinn að laga til eftir mig í hinum rafræna varnarhjúpi stjórnsýslunnar ætlaði ég að skrifa Götuhorninu bréf. En þá sá ég í fréttum að slíkt getur verið varasamt því að kyndilberar tjáningarfrelsisins í blaðamannastétt draga menn miskunnarlaust fyrir dómara ef þeim líkar ekki það sem skrifað er opinberlega. Ef maður sleppur við þá á maður samt á hættu að þrýstihópar kæri mann til lögreglu fyrir að vera þeim ósammála. Svo ákveða dómararnir hvort þeim finnst eftir á að hyggja að maður hefði getað komið hugsunum sínum í orð með heppilegri hætti. Nú veit maður allavega hvert málfarsráðunautar Ríkisútvarpsins fóru.

En ég hef nú semsagt skotið svolitlu fé saman þannig að ég hef peninga til að borga sektir og málskostnað vegna þessa bréfs til götuhornsins. Við erum heppin að búa í lýðræðissamfélagi þar sem tjáningarfrelsið er tryggt - svo lengi sem maður er tilbúinn til að borga fyrir það.


Athugasemdir

Nýjast