Gosið sem varla varð

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Náttúran á það sannarlega til að gefa okkur mannfólkinu langt nef og minna okkur á að vísindin vita ekki alla hluti. Þannig opnaðist sprunga í jörðina á Reykjanesi sama dag og seinheppinn jarðeðlisfræðingur lýsti því yfir að líklega yrði bara ekkert gos.  Nananana búbú.  Þetta, að því er virðist, minnsta gos á sögulegum tímum kemur þó á ákaflega heppilegum tíma.

Fréttamenn voru eiginlega komnir í þrot með Covid spurningar en fá nú ný tækifæri til að spyrja vísindamenn og fagmenn sömu spurninganna aftur og aftur og aftur....til þess eins að fá sömu svörin aftur og aftur og aftur. Ef fréttamönnum fer að leiðast þófið geta þeir gert heiðarlega tilraun til að skemmta alþjóð með því t.d. að slíta eitthvað af ummælunum úr samhengi og búa til æsilegar fyrirsagnir. Sívinsælt stönt. Nú svo eru auðvitað viðtöl við lögreglumenn og björgunarsveitarmenn.

Í þeim viðtölum gefast tækifæri á að spyrja sömu spurninganna jafn oft og áður og þreytulegir viðmælendurnir draga andann djúpt, telja líklega í huganum upp að tíu og svara af ítrustu kurteisi,- aftur og aftur og aftur. Ef að fréttatíminn er ekki þegar orðinn fullur þá er hægt að rúnta hringinn í nálægum bæjarfélögum og ræða við mann og annan, bensínsölumanninn, konu með barnavagn og fyrrverandi barnakennara. Oftast kemur þá í ljós að íbúarnir sem eru orðnir langþreyttir og vansvefta af hristingi eru bara hálffegnir því að ólgan í jarðarvömbinni sé nú loksins að skila sér í þessu pena gosi og alls ekki hræddir við neitt nema atganginn í fréttamönnum.

Okkur hinum gefst svo öllum gullið tækifæri til að fara okkur að voða með því að fara í skemmtiferð með fjölskylduna gangandi á hvítum strigaskónum upp að gosinu. Ís með dýfu á eftir.

En við skulum spyrja að leikslokum, þessi orð eru skrifuð á laugardagskvöldi en aldrei að vita hvað gerist til fimmtudags. Kannski eitthvað risastórt.  Stóra spurningin er þá hvort að RÚV getur hugsanlega rofið dagskrá á minna en einum og hálfum tíma eða hvort að Bogi verður aftur í óhnepptum jakkanum?


Athugasemdir

Nýjast