Gönguvikan á Akureyri og í Eyjafirði í fullum gangi

Vikulöng dagskrá hófst á Akureyri og í Eyjafirði í byrjun vikunnar þar sem göngur af ýmsu toga og erfiðleikastigum eru í aðalhlutverki.  Gönguvikan er samvinnuverkefni Akureyrarstofu, Ferðafélagsins Hörgs í Hörgárbyggð, Ferðafélags Akureyrar, Glerárdalshringsins 24X24 og Minjasafnsins á Akureyri. Þegar hefur verið gengið á Möðruvallafjall, Ystuvíkurfjall og Kerlingu.  

Eftirfarandi dagskrá er framundan:

*9. júlí Fimmtudagur

Hlíðafjall-Mannshryggur: Ekið að Skíðastöðum og gengið upp með skíðalyftunni eftir ruddri braut upp á fjallið.   Þetta er 2-3 klst. ganga við hæfi flestra. Fararstjóri: Frímann Guðmundsson. Frítt  í ferðina. Brottför frá skrifstofu Ferðafélags Akureyrar kl. 19.

*10. júlí Föstudagur

Vaðlaheiði - Skólavarða:  Ekið að uppgöngunni í Veigastaðalandi og eftir merktri leið upp á heiðina að vörðunni.  Þetta er 2-3 klst. ganga við hæfi flestra. Fararstjóri: Grétar Grímsson. Frítt í ferðina. Brottför frá skrifstofu Ferðafélags Akureyrar kl. 19.

*11. júlí Laugardagur
Glerárdalshringurinn:  Glerárdalshringurinn 24 tindar á 24 tímum er stór og umfangsmikill fjallgönguviðburður sem genginn er árlega í byrjun júlí.  
Verð kr. 10.000 kr. Skráning þarf að fara fram fyrir 1. júlí.  Brottför frá Skíðastöðum kl. 8.00  Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Glerárdalshringsins 24x24 http://www.24x24.is/

*11. júlí Laugardagur

Krossastaðir-Stórihnjúkur-Skíðastaðir: Gengið frá Krossastöðum á Þelamörk, upp í gegnum skógræktarreitinn á Vöglum og upp sunnan Krossastaðagils. Ofarlega við gilið er farið norður yfir það upp á Stórahnjúk. Þaðan gengið suður háfjallið að Mannshrygg og niður að Skíðastöðum. Fararstjóri: Ingvar Teitsson. Verð: 1.000 / kr. 1.500. Brottför frá skrifstofu Ferðafélags Akureyrar kl. 8.00

*12. júlí Sunnudagur

Meðfram Glerá (FFA): Gengið meðfram Glerá, frá Heimari-Hlífá, við réttina, til ósa. Þetta er frábær og áhugaverð gönguferð í okkar nánasta umhverfi þar sem vaxa sjaldséðar jurtir. Fararstjóri: Ingimar Eydal. Verð: kr. 1.000 / kr. 1.500. Brottför frá skrifstofu Ferðafélags Akureyrar  kl. 10.

*12. júlí Sunnudagur

Hús úr húsi - byggingarlist Innbæjarins:  Gengið frá Laxdalshúsi  kl 14.  (Gangan tekur 2 tíma með viðkomu í nokkrum húsum) Ekkert þátttökugjald.  Leiðsögumaður er Hanna Rósa Sveinsdóttir, sérfræðingur á Minjasafninu.


Nýjast