Eins og glöggir vegfarendur hafa eflaust tekið eftir hafa framkvæmdir staðið yfir í Hafnarstræti, eða Göngugötunni í miðbænum á Akureyri undanfarið. Akureyrarbær hefur í samráði við Miðbæjarsamtökin gert átak í fegrun miðbæjarins og að gera umhverfið aðlaðandi fyrir gesti og gangandi.
Framkvæmdirnar hófust í sumar þegar gróðurker voru máluð og í þau sett tré og runnar ásamt sumarblómunum. Nýjum bekkjum og ruslatunnum var jafnframt komið fyrir en sá búnaður verður hluti af nýju dvalarsvæðunum. Vinna er nú hafin við næsta áfanga og eru framkvæmdir þegar hafnar við fyrsta dvalarsvæðið í suðurenda götunnar.
Alls verða sex ný dvalarsvæði staðsett á götunni með hlöðnum grágrýtisveggjum, hjólastöndum, runnum og götutrjám. Verið er að skitpa út núverandi ljósastaurum fyrir nýja og hagkvæmari LED staura. Þeir ljósastaurar sem nú hafa risið eru talsvert frábrugðnir núverandi staurum.
„Fyrir utan lægri rekstrarkostnað verður lýsingin frá þeim markvissari og mun varpa spennandi skuggamynstrum yfir götuna þegar húmar að,“ segir Ingibjörg Isaksen formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar.
Til þess að auðvelda stjórnun umferðar í götunni er búið er að koma fyrir rafstýrðri umferðarlokun í tengslum við ákvörðun um lokun götunnar yfir sumartímann, líkt og Vikudagur greindi frá fyrir skemmstu. Framkvæmdum lýkur á næstu dögum.