Góður stígandi á stofnári Saga Capital en töluvert rekstrartap

Eignir Saga Capital Fjárfestingarbanka í árslok námu 38 milljörðum króna, eigið fé var 9,7 milljarðar og eiginfjárhlutfall á CAD-grunni 35,3%. Rekstrartap vegna ársins 2007 nam 825 milljónum króna, sem endurspeglar annars vegar stofnkostnað, sem var að stærstum hluta gjaldfærður á árinu, og hins vegar erfið skilyrði á innlendum og erlendum mörkuðum. Markaðshlutdeild bankans í Kauphöll Íslands setur hann í fjórða sæti á eftir stóru viðskiptabönkunum eftir einungis sex mánaða starfsemi. Sótt hefur verið um viðskiptabankaleyfi til Fjármálaeftirlitsins.

Saga Capital Fjárfestingarbanki var stofnaður seint á árinu 2006 og tók formlega til starfa í júnímánuði 2007. Að baki eru þannig tólf útgjaldamánuðir og sex tekjumánuðir. Frá júlímánuði hafa markaðir verið á miklu undanhaldi og lausafjárkreppa hefur breiðst út í kjölfar undirmálslánaerfiðleika í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir erfið ytri skilyrði hefur bankinn byggt upp góðan grunn í þóknana- og vaxtatekjum, en grundvöllur hans hvílir á fjórum meginstoðum: fyrirtækjaráðgjöf, markaðsviðskiptum, útlánasviði og eigin viðskiptum. Starfsmenn bankans í árslok voru alls 34. Kostnaður vegna uppbyggingar innviða og stofnunar bankans var að stærstum hluta gjaldfærður á árinu, segir í fréttatilkynningu.

Á fyrsta starfsári hefur margt áunnist og það segir mikið um öran vöxt Saga Capital að bankinn vermir nú fjórða sætið, á eftir stóru viðskiptabönkunum þremur, í umfangi viðskipta í Kauphöll Íslands það sem af er þessu ári. Í fyrirtækjaráðgjöf var nokkrum verkefnum lokið, þeirra stærst var sala á stórum eignarhlut í Íslenska gámafélaginu, en stjórnendur þess ásamt fjárfestum keyptu félagið af fyrri hluthöfum. Þóknanatekjur markaðsviðskipta hafa vaxið jafnt og þétt, en meginþungi starfseminnar hefur beinst að því að veita viðskiptamönnum bankans beinan aðgang að helstu kauphöllum heims gegn lágri þóknun. Auk þess annaðist sviðið sölu skuldabréfa fyrir Baug Group og Askar Capital. Lán útlánasviðs hafa einkum beinst að fasteignaverkefnum víða um heim, auk millilagsfjármögnunar fyrir ýmis verkefni heima og erlendis. Saga Capital hefur aldrei átt undirmálslán og það er mat stjórnenda að útlánasafn bankans sé vel dreift og tryggt. Svið eigin viðskipta bankans hefur umsjón með eignasafni hans í skráðum verðbréfum og afleiðum, skuldabréfum og hlutabréfum. Árferðið setti mark sitt á starf sviðsins, en starfsemin þar beindist sérstaklega að því að búa í haginn fyrir framtíðina, eins og sést á eignasafni bankans í árslok, sem að stærstum hluta var bundið í verðtryggðum ríkisskuldabréfum.

Í ársbyrjun sótti bankinn um leyfi til Fjármálaeftirlitsins fyrir viðskiptabankastarfsemi, auk þess sem samið var við Seðlabanka Íslands um aðgang að stórgreiðslukerfi hans. Enn fremur hefur verið samið við Reiknistofu bankanna um aðild. Þetta er gert í kjölfar sívaxandi krafna frá hluthöfum og viðskiptamönnum Saga Capital sem vilja sækja aukna þjónustu til bankans. Árið einkenndist af góðum og stígandi þóknanatekjum, bæði í fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskiptum. Vaxtatekjur voru jákvæðar, en takmörkuðust af háum fjármögnunarkostnaði við verðbréfaeign bankans. Tap vegna verðbréfaeignar skiptist í grófum dráttum að jöfnu milli hlutabréfa og skuldabréfa. Rekstrarkostnaður bankans var lágur og einkenndist af ráðdeild og varfærni. Af öðrum rekstrarkostnaði féll töluvert til vegna stofnunar bankans og uppbyggingar innviða hans og var sá kostnaður að mestu gjaldfærður á árinu.

Í árslok voru hluthafar Saga Capital Fjárfestingarbanka 93 að tölu. Í samræmi við stefnu bankans koma þeir úr flestum sviðum íslensks atvinnulífs með fjölbreytta þekkingu og ólíkan bakgrunn. Á undanförnum mánuðum hefur það verið bankanum gríðarlegur styrkur að búa við traust eignarhald og þéttan hluthafahóp. Árið 2008 hefur farið ágætlega af stað, þrátt fyrir versnandi skilyrði. Þannig hefur Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands lækkað um 23% frá byrjun árs, en verð skuldabréfa hefur á hinn bóginn stigið nokkuð skarpt. Þóknanatekjur eru enn stígandi og fyrirtækjaráðgjöf býr við góða verkefnastöðu, segir ennfremur í fréttatilkynningu.

Nýjast