Það er unnið á fullu í sjóböðunum á Húsavíkurhöfða og menn hafa nýtt sér hagstætt veðurfar síðustu vikurnar til framkvæmdanna. Trésmiðjan Rein sá um að leggja niður fyrstu steypuna í böðin á föstudag í fyrri viku og hefur beðið fólk að taka tillit til þess að þarna er vinnusvæði og því sé óþarfa umferð um svæðið vinsamlega afþökkuð.
Á myndinni, sem Gaukur Hjartarson tók með fulltingi flygildis fyrir réttri viku, sést vel hve umfangsmiklar framkvæmdirnar á svæðinu eru.
Þess má svo geta að Sigurjón Steinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri hjá Sjóböðum ehf., sem munu opna sjóböðin undir vörumerkinu GeoSea næsta sumar. Sigurjón hefur undanfarin ár starfað sem rekstrarstjóri hjá Kilroy Iceland og þar áður hjá Landsbankanum. Hann er með MBA gráðu frá Háskóla Íslands og B.Sc. gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst. JS