Martha Óskarsdóttir eldvarnareftirlitsmaður segir að það hafi verið mjög gaman að heimsækja öll þessi börn og að þau hafi staðið sig einstaklega vel. Því hafi verið ákveðið að verðlauna börnin með því að bjóða þeim í heimsókn á slökkvistöðina. Þar fengu börnin að prófa ýmislegt, tengt slökkvistarfinu, hlaupa undir vatnsbunur og fleira og þá var öllum boðið upp á grillaðar pylsur í lokin.
Starfsmenn slökkviliðins heimsóttu elstu börnin í vetur og sagði Martha að áhuginn hjá væri mikill. "Það hefur líka sýnt sig að verkefnið er að skila sér mjög vel til þeirra," sagði Martha. Farið var yfir það með börnunum m.a. hvert þau eigi að leita eftir aðstoð ef eitthvað kemur upp á, þ.e. að hringja í 112 og hvernig þau eigi að bregðast við ef eldur kemur upp. Börnin fengu að sjá hvernig slökkviliðsmaður lítur út í fullum skrúða, í slökkvigalla og með reykköfunartæki á sér. Eftir að hafa rætt við börnin inni og þau fengið að koma með ýmsar spurningar og ábendingar, var haldið út og slökkviliðsbifreið skoðuð. Öll börnin fengu afhentar möppur með verkefnum og viðurkenningarskjal um þátttöku þeirra verkefninu. Tveir starfsmenn slökkviliðsins, einn starfsmaður eldvarnareftirlits og einn slökkviliðsmaður, fóru í þessar heimsóknir í hvert skipti en þær eru hluti af samstarfi milli elstu barnanna í leikskólunum, Slökkviliðs Akureyrar og Eignarhalsfélags Brunabótafélags Íslands.