Vandræðaskáld blása nú til sérstakrar góðgerðarsýningar á gamanleiknum Útför – saga ambáttar og skattsvikara í Samkomuhúsinu á Akureyri föstudaginn 13. maí kl 20.
Vandræðaskáld sýndu sýninguna fyrst á Akureyri síðastliðið haust við afar góðar undirtektir og hefur sýningin síðan fengið mikið lof víða um land, en hún var síðast tekin til sýninga í Tjarnarbíói í Reykjavík. Allur ágóði af sýningunni mun renna til Sjúkrahússins á Akureyri.
Gamanleikurinn sem er í revíuformi leitast við að svara því hvað gerir Íslendinga að Íslendingum en frumsamin lög eru einnig veigamikill þáttur verksins og heyrast lög eins og „Forfeðraveldið", „Þetta reddast allt" og „Miðað við höfðatölu".
Sýningin er samin og flutt af Vandræðaskáldum, en þau eru Sesselía Ólafsdóttir, leikkona og leikstjóri, og Vilhjálmur B. Bragason, leikskáld. Bæði eru þau tiltölulega nýkomin heim úr námi frá London,en Útför er þeirra fyrsta sýning saman eftir heimkomu. Sesselía lærði leiklist og leikstjórn í The Kogan Academy of Dramatic Art, en Vilhjálmur lauk MA námi í leikbókmenntum og leikritun við RADA, The Royal Academy of Dramatic Art. (akureyri.is)