Góðgerðafélög á Akureyri njóta góðs af Reykjavíkurmaraþoni

Um þessar mundir eru fjölmargir hlauparar að undirbúa sig fyrir Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka sem fer fram þann 20. ágúst n.k.

Margir þátttakenda hlaupa til þess að safna fé fyrir góðgerðastarfssemi að eigin vali. Nú þegar þetta er ritað hafa safnast rúmlega 23. Milljónir króna alls.

Í hópi þeirra sem hafa safnað mest hingað til eru Akureyringarnir Baldvin Rúnarsson og Sigurbjörn Gunnarsson.

Sigurbjörn má segja að sé orðinn sameign þjóðarinnar eftir að hann heillaði fólk upp úr skónum með þátttöku sinni í þriðju seríu sjónvarpsþáttanna Biggest Loser Ísland þar sem hann gerði sér lítið fyrir og sigraði heimakeppnina svokölluðu, þ.e. hver léttist mest af þeim keppendum sem sendir eru heim. Sigurbjörn missti hér um bil helming líkamsþyngdar sinnar. Hann hefur heldur betur breytt um lífsstíl í kjölfar þáttanna og stundar ýmiskonar líkamsrækt og hreyfingu.

Sigurbjörn ætlar að hlaupa 10 km. Í Reykjavíkurmaraþoninu til styrktar Hollvinasamtökum Sjúkrahússins á Akureyri og stefnir á að safna einni milljón króna. Samtökin voru stofnuð í desember 2013 en markmið þeirra er að bæta tækjakost sjúkrahússins, vinnuaðstöðu starfsmanna og aðbúnað sjúklinga.

„Mér er annt um Sjúkrahúsið á Akureyri og vil leggja mitt af mörkum í að efla það og styrkja. Ég hef líka gaman af taka erfiðar áskoranir þannig ef 1.000.000 kr markmiðið næst þá mun ég hlaupa heilt maraþon á næsta ári,“ segir Sigurbjörn á styrktarsíðu sinni.

Sigurbjörn hefur þegar þetta er ritað safnað 243 þúsund krónum.

Sá sem safnað hefur mest hingað er Baldvin Rúnarsson, 22. ára. Hann ætlar að hlaupa 21 km til styrktar Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis. Tilgangur þess er að styðja í hvívetna baráttu gegn krabbameini. Aðaláherslan í starfseminni er að veita alhliða stuðning við fólk sem greinist með krabbamein og fjölskyldur þeirra, bæði maka og börn, vini og vinnufélaga. Auk þess að veita persónulega ráðgjöf stendur félagið fyrir námskeiðum, Opnu handverkshúsi, líkamlegri og andlegri endurhæfingu o.m.fl. Einnig aðstoðar félagið fólk við að greiða fyrir afnot af íbúðum Krabbameinsfélags Íslands í Reykjavík vegna t.d. geislameðferðar.

Baldvin setti sér það markmið að safna einni milljón króna fyrir félagið. Hann hefur á þessari stundu safnað 1.122 þúsund krónum og hefur því náð markmiði sínu og gott betur. „Fyrir þremur árum greindist ég með heilaæxli sem ég er enn að berjast við. Síðasta sumar þurfti ég að flytja suður til að hefja geisla- og lyfjameðferð og Krabbameinsfélag Akureyrar sá til þess að ég fengi íbúð til að vera í á meðan meðferðinni stóð. Þess vegna ætla ég að hlaupa hálfmaraþon og styrkja þetta frábæra félag í leiðinni,“ segir Baldvin á styrktarsíðu sinni.

Þeir sem vilja heita á Sigurbjörn geta gert það hér.

Þeir sem vilja heita á Baldvin geta gert það hér.

 

Nýjast