Góð viðbrögð og áhugi fyrir nágrannavörslu

Viðbrögð og áhugi íbúa við hugmyndinni um nágrannavörslu á Akureyri hafa verið mjög góð, að sögn Hermanns Jóns Tómassonar bæjarstjóra, en hverfisnefndum bæjarins var kynnt hugmyndin í lok ágúst sl. á fundi með fulltrúum Sjóvár og Akureyrarbæjar.  

Á þeim fundi voru skipaðir þrír fulltrúar frá hverfisnefndunum ásamt fulltrúa Akureyrarbæjar í nefnd sem hefur það hlutverk að koma verkefninu af stað. Nú þegar hefur ein gata formlega tekið þátt og ein önnur er í startholunum. „Í gegnum tíðina hafa margir íbúar Akureyrar komið sér saman um að líta eftir eigum nágranna sinna, þannig að hugmyndin um nágrannavörslu er ekki ný af nálinni. Þessi hugmynd sem nú er kynnt byggist á að íbúarnir sjálfir sjái um nágrannavörsluna en Akureyrarbær og Sjóvá leggi til þau verkfæri sem til þarf," segir Hermann Jón.
„Við verðum vör við töluverðan áhuga fyrir þessu verkefni, enda ýta ytri aðstæður undir hann.  Við merkjum einnig töluverða umferð um heimasíðu okkar og margir hafa hlaðið „verkfæraboxinu" niður," segir Jón Birgir Guðmundsson forstöðumaður Sjóvá á Akureryi. Kynningarfundur um nágrannavörslu verður haldinn í Brekkuskóla þann 15. október nk. kl. 20.00.

Nýjast