Góð aðsókn að Fjölsmiðjunni og starfssemin dafnar

„Þetta gengur nú yfirleitt alltaf mjög vel hjá okkur. Starfsemin er lífleg og þetta vex og dafnar vel hjá okkur," segir Erlingur Kristjánsson forstöðumaður hjá Fjölsmiðjunni á Akureyri. Félagsmálaráð samþykkti nýlega að veita Fjölsmiðjunni á Akureyri 4 milljónir króna í rekstrarstyrk fyrir árið 2011.  

Erlingur segir upphæðina koma sér vel fyrir starfssemina en Fjölsmiðjan er atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum á aldrinum 16-24 ára, sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Í dag eru 13 krakkar starfandi í Fjölsmiðjunni og segir Erlingur aðsóknina vera góða. „Það voru 17 krakkar í byrjun sumars en það fóru sex frá okkur núna með haustinu, sumir í vinnu og aðrir í skóla," segir Erlingur. Eitt af markmiðum Fjölsmiðjunnar er að gera einstaklingana betur í stakk búna til á að takast á við lífið og er ungmennunum hjálpað við að finna sér stað í lífinu og byggja sig upp fyrir framtíðina. Erlingur segir þó misjafnt hvernig einstaklingum líkar dvölin. „Það er ekkert öllum sem líkar vel hérna en ég get þó sagt að í langflestum tilvikum líkar fólki vel og menn fara sáttir frá okkur. Við teljum okkur þannig vera að skila þessum einstaklingum betur út í samfélagið," segir hann.

Nýjast