Gleymdist að reikna með jarðskjálftahættu

Árni Grétar Árnason, framkvæmdastjóri Faktabygg á Íslandi. Mynd /epe
Árni Grétar Árnason, framkvæmdastjóri Faktabygg á Íslandi. Mynd /epe

Tafir hafa orðið á framkvæmdum við byggingu raðhúsa í Grundargarði en það er Faktabygg sem byggir í samstarfi við Búfesti. Faktabygg í Noregi stofnaði árið 2018 dótturfélagið Faktabygg ehf. ásamt Árna Grétari Árnasyni sem er framkvæmdastjóri íslenska félagsins. Um er að ræða tvö raðhús, hvort með sex íbúðum.

Svo virðist vera sem útreikningar norskra verkfræðinga hafi ekki gert ráð fyrir að Húsavík liggur á einu virkasta jarðskjálftasvæði landsins.

Faktabygg 2020

„Þetta er hannað úti í Noregi af norskum verkfræðingum og þeir feiluðu á jarðskjálftaálagi. Svo erum við með verkfræðing í Reykjavík sem fer yfir teikningar og leggur þær fram en hann fór að spyrja eftir útreikningum. Þá kom í ljós að það bar á milli, þarna átti sér stað einhver misskilningur á milli landa. Norðmenn eru ekki vanir að vinna með skjálftasvæði, þannig að það tók sinn tíma að fá menn á sömu blaðsíðu,“ útskýrir Árni Grétar í samtali við Vikublaðið og bætir við að komið hafi í ljós að styrkingar vegna jarðskjálftaálags hafi vantað. „Við þurfum að setja stálbita þarna inn en fyrir vorum við búnir að setja upp límtré.“

Baðherbergin voru hífð tilbúin inn í íbúðirnar þar sem þau standa á stálramma og þeir bitar standa síðan á öflugu límtré. „Það þarf að skipta því út og setja stálbita í staðinn til að fá þennan stífleika á móti jarðskjálftunum. Þetta snýst ekki um burðarþol heldur bara stífleikann á móti límtrénu,“ segir Árni Grétar og bætir við að þetta hefði verið auðveldara ef gert hefði verið ráð fyrir þessu frá byrjun.

Árni Grétar segir að vegna þessa sé verkefnið komið sex vikum á eftir áætlun. „Það er spurning hvernig okkur tekst að vinna það upp.“ Upphafleg verkáætlun gerði ráð fyrir að íbúðirnar yrðu tilbúnar til afhendingar um mánaðamót janúar/febrúar en Árni segist gera ráð fyrir því að afhendingar dragist eitthvað út í mars.

 Reisa íbúðir fyrir Þingeyjarsveit

Faktabygg er einnig komið af stað með verkefni fyrir Þingeyjarsveit að Stórutjörnum en um er að ræða parhús með 80 fermetra íbúðum sem ætlaðar verða til útleigu. Þegar Vikublaðið ræddi við Árna Grétar í gær, miðvikudag var búið að steypa sökkla og verið að hefjast handa við að steypa gólfplötuna. „Húseiningarnar eru komnar og tveir smiðir komnir frá Noregi sem eru að klára vinnusóttkví. Svo erum við bara að fara reisa fram á sunnudag. Eftir viku á þetta hús að standa full frágengið að utan, einangrað og með þaki. Tilbúið til að halda áfram að innan,“ segir Árni og bætir við að afhending sé áætluð í mars/apríl.


Nýjast